12.11.1984
Efri deild: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

146. mál, sjómannalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til sjómannalaga. Frv. þetta var lagt fram á síðasta Alþingi og vísað þá til samgn. Fyrstu almennu siglingalög Íslendinga eru frá 1913 en voru ári síðar, 1914, endurútgefin sem lög. Þar er að finna allítarleg ákvæði um réttarstöðu sjómanna. Árið 1930 voru ákvæði um kjör skipshafnar og skipstjóra numin úr siglingalögum og þau endurskoðuð og sett í sjómannalög það ár. Núgildandi sjómannalög eru frá 1963. Þau eru að mörgu leyti unnin að fyrirmynd laga annarra Norðurlandaþjóða. Breyting var gerð á 18. gr. þeirra laga árið 1980 þar sem aukin voru réttindi sjómanna til greiðslu launa í veikinda- og slysatilfellum til samræmis við aukin réttindi landverkafólks á þessu sviði.

Á síðustu tveimur áratugum hefur orðið talsverð þróun í kjaramálum sjómanna sem og annarra launþega og hafa aðrar Norðurlandaþjóðir þegar endurskoðað sín sjómannalög. Þar sem ljóst þótti að gildandi sjómannalög þurftu endurskoðunar við skipaði þáverandi samgrh. nefnd 8. sept. 1981 til að endurskoða gildandi siglingalög og sjómannalög, aðallega um réttindi og skyldur sjómanna og útvegsmanna í veikinda- og slysatilfellum sjómanna, svo og um líf- og öryggistryggingu sjómanna og gildissvið þeirra trygginga. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar tilnefndir af þessum aðilum: Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda og Vinnuveitendasambandi Íslands vegna kaupskipaútgerðar. Páll Sigurðsson dósent var skipaður formaður nefndarinnar.

Við skipun framangreindra nefndarmanna var m.a. leitast við að gæta þess að í nefndinni ættu sæti fulltrúar hinna helstu hagsmunasamtaka eða hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi. Nefndin skilaði sínu nál. í janúar á þessu ári með því frv. sem hér er nú lagt fyrir öðru sinni. Breytingar þær, sem gert er ráð fyrir í frv. frá þeim sjómannalögum sem nú gilda, miða fyrst og fremst í þá átt að gera mikilvæg atriði ljósari og lögin í heild aðgengilegri til notkunar en nú er, enda mikilvægt að réttarstaðan í samskiptum sjómanna og útgerðarmanna sé sem skýrust.

Á hitt er þó að líta að aldrei verður með lögum mælt fyrir um allt það er hugsanlega getur valdið ágreiningi á milli sjómanna og útgerðarmanna og hefur frv. helst að geyma ákvæði um þau svið sem reynslan hefur sýnt að raunhæft er að lögbinda. Mörg atriði er heppilegra að skera úr um í kjarasamningum milli þeirra stétta sem við sjómennsku, siglingar og sjávarútveg starfa. Það er erfitt að semja frv. sem átt getur við um alla sjómenn á íslenskum skipum. Hins vegar má fullyrða að sjómannalög Íslendinga sem og annarra þjóða hafa einkennst af ákvæðum sem fremur lúta að stöðu farmanna en fiskimanna. Má e.t.v. einnig finna þess merki í þessu frv. enda þótt sjónarmiða fiskimanna og fiskiskipaútgerðarinnar hafi einnig verið gætt.

Efni þessa frv. skiptist í sex kafla.

Í I. kafla eru almenn ákvæði um gildissvið laganna og skýrð eru meginhugtök sem notuð eru í frv.

II. kaflinn fjallar um ráðningarsamning o.fl. Ákvæði kaflans eiga sér að nokkru leyti fyrirmynd í gildandi sjómannalögum en eru um margt fyllri. Hann skiptist svo aðallega í tvo undirkafla, annars vegar um samningsgerðir og hins vegar um ráðningartíma.

III. kaflinn er um rétt skipverja til að krefjast lausnar úr skipi. Þar eru nokkrar breytingar og nýmæli frá gildandi lögum.

Í IV. kafla er fjallað um rétt skipstjóra til að víkja skipverja úr skiprúmi. Um þetta er nú ákvæði í lögunum frá 1963. Þó er það nýmæli í síðara hluta að sá sjómaður, sem starfað hefur í 15 ár eða lengur í þjónustu sama útgerðarmanns, á rétt til sérstakrar uppbótar sem nemur eins mánaðar launum, sé um yfirmann að ræða, en 15 daga launum, sé um undirmann að ræða.

V. kaflinn fjallar um kaup skipverja, en ákvæði þess kafla fjalla að nokkru leyti um það sama og nú er í 18.25. gr. laganna frá 1963.

VI. kaflinn er um umönnun og kaup sjúkra skipverja og er ítarlegur kafli um þessi atriði.

Ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir efni þessa frv. að öðru leyti þegar ég lagði það fram seint á síðasta þingi á þessu ári og sé ekki ástæðu til að fara skýrar út í það hér. Hér er um að ræða langt starf þeirra manna sem að samningu þessa frv. hafa staðið. Ég vil þó taka fram að þó að samvinna hafi verið góð í nefndinni og sameiginlegt nál. þá skiluðu þrír nm. sérstakri tillögu um orðalag 36. gr. frv. sem nm. hv. deildar sjá þegar þeir rekja nánar efni þessa frv.

Í vor skýrði ég frá því að ég gerði ekki kröfu til þess að samgn. afgreiddi málið þá, heldur var það fyrst og fremst flutt á því þingi til þess að sýna málið, því hér er um veigamikinn lagabálk að ræða. En ég vænti þess að n. taki frv. til gagngerðrar athugunar og afgreiðslu á þessu þingi þar sem að er flutt svo snemma þings.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.