20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6974 í B-deild Alþingistíðinda. (6321)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að skrifa upp á þessa fsp. til hæstv. sjútvrh. þar sem svo vill til að ég þekki nokkra menn sem hafa afskipti af mati á sjávarafurðum, bæði matsmenn og verkendur, og frá þessum mönnum heyri ég ítrekað ævintýralegar sögur um margvíslega misbresti á framkvæmd laganna og vinnubrögðum í matsgerð.

Hér hafa af hálfu 1. fyrirspyrjanda verið rakin nokkur dæmi. Hann hefur enn fremur vísað til álitsgerðar sem Sigurður Líndal hefur látið frá sér fara, en í henni felst vægast sagt harður dómur um óstjórn og skipulagsleysi í þessum málaflokki. Nú hef ég enga stöðu til að kynna mér öll málsatvik. En það hlýtur að vera skylda hvers þm. að leggja við eyrun þegar fullyrt er og dæmi sýnd um að lög séu brotin, að lög og reglugerðir samrýmist ekki. Og allra helst hljóta menn að staldra við þegar fullyrt er að mikið tjón hljótist af, ekki aðeins fyrir fiskvinnsluna heldur líka að sjálfsögðu fyrir þjóðina alla.

Hæstv. ráðh. hefur líka tekið fram, að því er varðar 1. lið fsp., að Ríkismatið beri enga fjárhagslega ábyrgð á þeim mistökum sem fram koma í mati á sjávarafurðum. Það má vel vera rétt. En því má líka halda fram að Ríkismatið hafi siðferðislega ábyrgð. Og hver svo sem ber ábyrgðina þá er ljóst að þjóðin ber skaðann.

Hér hefur verið vísað til bréfs frá hæstv. ráðh. til Sambands ísl. fiskframleiðenda um mat á saltfiski. Nú get ég út af fyrir sig fallist á að kannske sé það skynsamlegasta aðferðin að láta matið vera í höndum seljendanna, enda eru það þeir sem hafa mesta hagsmuni af því að varan sé í góðu og fullkomnu lagi. En lögin segja til um annað, og meðan svo er er náttúrlega útilokað að sætta sig við það að reglugerð sé gefin út sem stangast á við lögin og að fyrirmæli eða bréf séu send frá rn. sem stangast líka á við lögin.

Í svörum hæstv. ráðh., sem voru fróðleg út af fyrir sig, kemur fram og viðurkennt er að ýmis misbrestur sé á þessum málum. Hann lofar því hins vegar að ráðstafanir verði gerðar og er sjálfsagt að gera ráð fyrir að því verið fylgt eftir. En ég leyfi mér að fullyrða að þessi fsp. hafi átt fullan rétt á sér, að hér sé víða pottur brotinn og ég skora á hæstv. ráðh. að fara ofan í saumana á þessu máli því að hér eru miklir hagsmunir í húfi.