20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6977 í B-deild Alþingistíðinda. (6325)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt til þess að mótmæla þeim mjög svo annarlega lagaskilningi sem verið var að túlka í ræðustól rétt í þessu. Aðalatriði þessa máls, segir hæstv. ráðh., er það hvort íslenskur útflutningur batnar að gæðum eða ekki. Hann horfir gersamlega sem löggjafi fram hjá því að hér er verið að ræða um lög en ekki um gæði íslensks útflutnings. Það er verið að spyrja þeirrar spurningar hvort hér sé farið að lögum eða ekki.

Bandalag jafnaðarmanna var mjög á móti þessum lögum, mjög svo, þegar þau voru sett. Það breytir samt sem áður ekki þeirri afstöðu okkar að fara skuli að lögum þegar þau hafa verið sett. Í 14. gr. þessara laga stendur skýrt og skorinort: Afurðadeild annast yfirmat á öllum fiskafurðum til útflutnings, eins og hér hefur verið margítrekað. Við þurfum ekki annað en þurrka út orðið afurðadeild og setja í stað þess eitthvert nafn: Jón Jónsson annast yfirmat á öllum fiskafurðum til útflutnings. Þá er það alveg á hreinu að hann getur ekki afhent þetta starf einverjum öðrum aðilum í hendur. Skoðun Sigurðar Líndals á þessu máli, hvort sem hæstv. ráðh. vill taka mark á henni eða ekki, hlýtur því að vera rétt.