20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6977 í B-deild Alþingistíðinda. (6326)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umræður. Ég átti á s. l. vori í allharðvítugum dellum og hélt því fram að sá lagabálkur er væri verið að semja og samþykkja væri forkastanlegur, hann væri svo illa unninn í upphaflega frv. sem lagt var fyrir Alþingi að beinar mótsagnir væru milli lagagreina. Og ekki nóg með það. Sama efnið var kannske tekið fram í fjórum greinum. Á síðustu stundu tók sig til sjútvn. Nd. á næturstund með heilan lagabálk og gerði 20 umfangsmiklar brtt. Sjútvrh. taldi engar brtt. nauðsynlegar. Síðan fór þetta fyrir Ed. Hún gerði fjórar umfangsmiklar brtt. Sökum tímaskorts gat hún ekki gert fleiri, var sagt af einum ræðumanni frá nefndinni. Og hvað svo?

Ég varaði við þessum vinnubrögðum ásamt fleiri hv. alþm. Þá segir einn vitrasti prófessor Háskólans, — sem náttúrlega sjútvrh. kemur ekkert við. Hann er ráðherra, hvað kemur honum við lagaprófessor? — þessi virðulegi og virti lagaprófessor segir; með leyfi forseta:

„Þessi lagasetning hefur tekist miklu miður en skyldi og hlýtur það að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir alþm. hvernig það gerist að lög þannig úr garði gerð komist í gegnum þingið. Einhver brotalöm virðist vera á tæknilegum undirbúningi löggjafar hér á landi.“

Ég hygg að alþm. væru reiðubúnir til breytingar á þessu, nema hæstv. sjútvrh. Honum koma lagaprófessorar ekkert við. Hann gefur bara út reglugerðir burtséð frá lögum.