20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6977 í B-deild Alþingistíðinda. (6327)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. nefndi það í ræðu sinni, eða svo mátti skilja á ræðu hans, að ágæti þessarar reglugerðar, þeirra laga sem hér hefur verið rætt um, væri þegar farið að koma í ljós, nú væri íslensk framleiðsluvara miklu betri, það hefði komið fram. En ef við lítum á dagsetningar í þessu sambandi þá er hæstv. sjútvrh. ekki að hæla sínum eigin handaverkum eða sínum eigin lögum eða sínum eigin reglugerðum, heldur er hann að hæla gamla kerfinu af því að gamla kerfið hefur verið í gangi fram á síðustu daga. Hinn 15. mars var reglugerðin samþykkt og það er varla hægt að fara að hæla sér af útkomunni út úr þeirri reglugerð, út úr framkvæmd þessara laga nú um miðjan júní. Það er langt frá því að nokkur reynsla sé komin á reglugerðina og lögin. Og því miður óttast menn frekar að það verði á hinn veginn, að þessi lög og þessi reglugerð verði þess valdandi að afurðir okkar verði ekki eins góðar og verið hafa.