20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6986 í B-deild Alþingistíðinda. (6349)

60. mál, þjónusta vegna tannréttinga

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég þakka frsm. hv. allshn. fyrir undirtektir við þá brtt. sem ég hef hér kynnt og flutt. Ég vil aðeins taka það fram að sú till. er ekki flutt til að spilla fyrir þessu máli sem er, eins og ég sagði áðan, ágætt mál og sjálfsagt.

Ég las grg. yfir og gerði mér grein fyrir því hver megintilgangur þáltill. er. En fram hjá því verður engu að síður ekki gengið að í þáltill. sjálfri er aðeins sagt að leita skuli allra leiða til að koma á ákveðinni, skipulagðri þjónustu í tannréttingum úti á landsbyggðinni, án þess að það sé tilgreint nánar hvað átt sé við. Og þetta almenna orðalag leiðir auðvitað til þess að hægt er að fella undir till., og tilgang hennar ef samþykkt verður, þau atriði sem ég var að nefna áðan, þ. e. þau vandræði sem steðja að þeim þéttbýlisbúum sem þurfa á tannréttingum að halda.

Ég geri ekki lítið úr þeim mikla kostnaði sem dreifbýlisbúar hafa af því að sækja hingað suður til að leita sér þessarar þjónustu. Af því hlýtur að verða mikill kostnaður bæði fyrir viðkomandi og eins fyrir sjúkrasamlagið, en ég efast ekki um að það sem flm. upphaflega hefur haft í huga og nefndin hefur tekið undir er að hér á að bæta fyrst og fremst fyrir fólkið sjálft þannig að það fái þjónustuna, spurningin er kannske ekki hvort kostnaðurinn sé meiri eða minni heldur yfirleitt hvort fólk geti fengið tannréttingar eða ekki á þeim árum þegar á því þarf að halda. Þess vegna kemur upp í minn huga, og það varð tilefni til þess að ég tók hér til máls, að sú þjónusta er í miklu lamasessi, ekki eingöngu úti í dreifbýlinu heldur hér á þéttbýlinu enn fremur.

Ég leyfi mér að halda því fram að þó þessi till. sé flutt og góður hugur fylgi henni þá verði fyrirsjáanlega mikil vandkvæði á því að fá lærða menn í tannréttingum til að sinna þjónustunni úti á landi, einfaldlega vegna þess að það eru afar fáir sem sinna þessari þjónustu og hjá þeim yrðu biðlistar fyrir marga mánuði, og eins og ég sagði áðan, fyrir mörg ár, þannig að ef menn vilja gera þær úrbætur sem nauðsynlegar eru þá þarf að skoða það hvernig á því stendur að ekki eru fleiri sem sinna tannréttingum og hvetja tannlækna eða tannsmiði til þess að fara í vaxandi mæli út á þessa braut.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti. Ég hef gert grein fyrir mínum sjónarmiðum og lagt fram till. og er ánægður með það að hv. frsm. nefndarinnar hefur lýst yfir stuðningi við þessa brtt.