20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6986 í B-deild Alþingistíðinda. (6351)

449. mál, fiskiræktarmál

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Hjá atvmn. hafa legið þrjú mál sem snerta fiskeldi og fiskirækt og eru þau öll á dagskrá þessa fundar, þ. e. 427., 276. og 449. mál. Nefndin tók öll þessi mál til meðferðar í einu og hefur afgreitt þau öll á svipaðan hátt og með orðalagi í nál. sem er mjög svipað við hverja till., aðeins að breyttu breytanda, en varðandi þá till. sem hér um ræðir er nál. svohljóðandi:

„Nefndin hefur fjallað um till. og fengið umsagnir frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Búnaðarfélagi Íslands, sjútvrn. og landbrn. Nefndin hefur jafnframt fjallað um tvær aðrar tillögur um fiskeldismál, þ. e. 427. mál og 476. mál.

Ríkisstj. hefur að undanförnu haft til meðferðar ýmsa þætti fiskeldismála. Nefndin telur rétt að sá þáttur í stjórn þessara mála, sem till. þessi fjalla um, komi til athugunar við undirbúning löggjafar um þessi mál. Í trausti þess að ríkisstj. hraði stefnumörkun og undirbúningi löggjafar í málinu þannig að unnt verði að leggja fyrir næsta löggjafarþing frv. til l. um skipan fiskeldismála, þ. á m. um eflingu og endurskipulagningu fisksjúkdómavarna, mengunarmál og rannsóknarstarfsemi, leggur nefndin til að till. verði vísað til ríkisstj.

Undir þetta rita allir nm. eins og fram kemur í nál. Jóhanna Sigurðardóttir ritar undir með fyrirvara.

Ég vil sérstaklega taka fram að nefndin leggur áherslu á að þessu verki, sem um er fjallað í nál., verði hraðað þannig að frv. um þennan mikilvæga málaflokk verði lagt sem fyrst fram á næsta löggjafarþingi.