20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6989 í B-deild Alþingistíðinda. (6359)

156. mál, nýting ríkissjóðs á hluta af Seðlabankabyggingu

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal tekið fram að það er rétt sem hv. 5. landsk. þm. sagði. Það var talað um það á fundi með forsetum og þingflokksformönnum að freista þess að taka fyrir og fá afgreiðslu á þeim þáltill. sem komnar væru úr nefnd og væru ágreiningslausar.

Með tilliti til þessa var till. tekin á dagskrá. En líka með tilliti til þessa þá verður ekki hægt að halda umr. áfram ef hér eiga að spinnast langdregnar umræður um þessa till. Ég vænti þess að menn sjái að það er ekki hægt. Það eru mörg verkefni og yfirfljótandi að gera fyrir báðar deildir þingsins. Þar er um að ræða mál sem hefur verið gert ráð fyrir að fái fyrirgreiðslu. Ef það á hér að eyða þessum takmarkaða tíma í umræður um þetta mál verður ekki tími aflögu til annars.