20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6990 í B-deild Alþingistíðinda. (6364)

156. mál, nýting ríkissjóðs á hluta af Seðlabankabyggingu

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ekki hef ég ætlað mér að setja hér allt á annan endann í lok þessa þings. Ég mæltist til þess í ræðu minni að hæstv. ráðherrar, sem ég þar tilnefndi, gæfu upplýsingar varðandi samningaviðræður um nýtingu þeirrar byggingar sem hér er á dagskrá með vissum hætti. Ég er ekki með ófrávíkjanlegar kröfur í þessu efni og ekki tek ég hæstv. ráðh. í greip mína og veifa þeim. Það er að sjálfsögðu á þeirra valdi með tilliti til eðlis mála hvort þeir svara þeirri fsp. sem ég beindi til þeirra.

Ég hef ekki ætlað mér með þessu háttalagi, ef ég má svo að orði komast, að spilla því samkomulagi sem gert hefur verið af hálfu formanna þingflokka. Nú er það svo að almennum þm. er ekki ævinlega kunnugt um það samkomulag sem gert er á hverjum tíma, enda þótt hér séu allmörg mál á dagskrá. Mér var ekki kunnugt um það að aðilar væru bundnir fastmælum um meðferð þeirra á þessum fundi.

En að lokum, herra forseti, ég legg það í vald hæstv. ráðh. hvort þeir víkja að þessu máli sem ég gat um áðan.