12.11.1984
Efri deild: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv., sem hér er lagt fyrir, er flutt að beiðni nefndar sem skipuð var til þess að ræða skipulagningu heilsugæslunnar á stór-Reykjavíkursvæðinu.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu, sem sett voru 1973 og tóku gildi 1. jan. 1974, var m.a. kveðið á um að heilsuverndarstarf skyldi haldast óbreytt eins og það var samkv. lögum frá 1955 þar til heilsugæslustöðvar hefðu. verið skipulagðar til þess að annast það. Það var enginn tímafrestur settur til þeirrar skipulagningar. Við endurskoðun laganna um heilbrigðisþjónustu, sem fór fram 1977 og 1978, var þessu bráðabirgðaákvæði ekki breytt, en við síðustu endurskoðun, sem stóð yfir seinni hluta ársins 1982, en þá voru þessi áðurnefndu tvenn lög felld saman um heilbrigðisþjónustu, er í ákvæðum til bráðabirgða gefinn frestur til að koma á heilsugæslukerfi til n.k. áramóta. Það var talið nauðsynlegt að rekið yrði eitt kerfi á þessum vettvangi í landinu öllu og ekki væri seinna vænna að koma því kerfi á, en það var upphaflega ákveðið með lögum, eins og ég sagði áður, fyrir rúmum áratug.

Á s.l. vori komu forsvarsmenn sveitarstjórna hér á höfuðborgarsvæðinu til fundar í rn. til að ræða skipulag heilsugæslunnar á svæðinu með hliðsjón af þeim fresti sem rennur út nú um áramót. Á þeim fundi komu fram ýmis tormerki varðandi skipulagninguna og raddir sem töldu heilsugæslukerfið ekki eiga við á svæðinu að öllu leyti.

Í framhaldi af áðurnefndum fundi ákvað ég í samráði við sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu að setja á fót nefnd til að gera tillögur um skipan þessara mála innan svæðisins og var nefndin skipuð 20. júní s.l. Með bréfi sem kom frá nefndinni 22. okt. s.l. lýsir nefndin því yfir að vonlaust sé að leggja til fullmótaðar tillögur fyrr en í lok janúar n.k. Því sé talið nauðsynlegt að flytja hér frv. um að framlengja umræddan frest í ákvæðum til bráðabirgða vegna þeirra heilsugæsluumdæma á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki hafa þegar tekið upp heilsugæslukerfið að fullu, til 31. des. 1985. Því er þetta frv. flutt.

Ég tel vonlaust með öllu að gildistaka sem þessi fari fram nema um áramót. Hins vegar vil ég taka fram að ekki er um fleiri staði að ræða á landinu. Á Akureyrarsvæðinu tekur hið nýja kerfi gildi frá næstu áramótum og þar er ekki um nein slík vandkvæði að ræða sem hér eru. Þetta nær því eingöngu til höfuðborgarsvæðisins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.