20.06.1985
Efri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7006 í B-deild Alþingistíðinda. (6386)

262. mál, almannatryggingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. hefur fjallað um þetta nál. Eins og fram hefur komið var alger samstaða um afgreiðslu þess í Nd. og var það einnig í hv. heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar. Allir nm. rita undir nál. Í grg. með frv. er vikið að markmiðum frv. sem er að hækka greiðslur makabóta til þeirra sem bundnir eru heima við vegna örorku eða langvinns sjúkdóms maka og geta ekki af þeim sökum aflað sér tekna.

Í 13. gr. almannatryggingalaga eru ákvæði þess efnis að greiða megi elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að 80% einstaklingslífeyris ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Í framkvæmd hefur ákvæði þessarar gr. verið þannig að einungis hefur verið miðað við grunnlífeyri án tekjutryggingar og er upphæð makabóta nú 3394 kr. 78 konur og 4 karlar fá nú makabætur.

Með frv. þessu er lagt til að makabætur geti numið allt að 80% af samanlögðum grunnlífeyri og tekjutryggingu eða 8154 kr. í stað 3394 kr.

Í des. s. l. var fjöldi þeirra sem nutu makabóta 82 skv. upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins og þegar hefur komið fram sá fjöldi. Kostnaður á mánuði miðað við núgildandi makabætur eru um 280 þús. kr., eða 3.3 millj. kr. á ári. Ef frv. þetta yrði að lögum yrði kostnaðurinn 669 þús. á mánuði eða 8 millj. kr. á ári. Útgjöld, sem þetta frv. hefði í för með sér, væru því á ári um 5 millj. kr.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls var alger samstaða um það að afgreiða málið óbreytt frá afgreiðslu þess í Nd.