20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7014 í B-deild Alþingistíðinda. (6396)

210. mál, selveiðar við Ísland

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég flutti við þetta frv. brtt. sem nú hafa verið felldar og eins og ég lýsti í minni hluta áliti mínu úr sjútvn. Nd. mun ég að þeim felldum greiða atkv. gegn frv. vegna ástæðna sem ég lýsi í þessu minnihlutaáliti. Ég tel að hér sé ekki rétt farið að þessu hlutum. Það er augljóst af þeim álitum sem borist hafa og þeim umr. sem hér hafa átt sér stað að um þetta er alls ekki sá einhugur sem þyrfti að vera. Það er augljóst að einhugur er í landinu um að vinna þannig að rannsóknum á selum og hringormum að menn komist vel til botns í því hvernig hægt er að hafa og hvort hægt er að hafa stjórn á hringorminum með átökum við selastofninn. Þær rannsóknir hafa alls ekki verið nægar og vísindamenn hafa bent á að mjög mikið vantar á að menn geti með nokkurri sannfæringu farið út í fjöldafækkun á selum með það fyrir augum að fækka verulega hringormi. Fyrir því eru óljósar líkur, en alls ekki þær vísindalegu staðföstu niðurstöður sem menn þurfa að hafa í höndunum ef þeir fara út í fjárfrekar og augljóslega umdeilanlegar aðgerðir gegn þessum dýrastofni.

Undirbúningur málsins virðist hafa verið þannig að í fyrri ríkisstj., sem á þetta mál ef svo má að orði komast, sem bjó þetta frv. til, var ekki um það samstaða milli þess ráðh. sem lét útbúa málið og landbrh. Það sama er uppi í þessari ríkisstj. Þar hefur landbrh. lýst sig andvígan málinu, en sjútvrh. heldur því fram. Það hefur komið fram í ræðum og reyndar í atkvgr. í gær að fjöldi þm. hefur miklar efasemdir uppi um þetta mál. Ýmsir hafa hreinlega lýst sig andvíga því af ástæðum sem ég ætla ekki að fara að telja upp til þess að lengja þessa umr. ekki meir. Allt þetta virðist mér benda til þess að það sé full ástæða til að fara nánar ofan í saumana á þessu máli. Það er, eins og ég segi, óeining um það og tortryggni. Það er því ekki þannig í pott búið sem nauðsynlegt væri fyrir mál jafnviðkvæmrar náttúru og ég tel þetta mál vera.

Ég endurtek að allir sem hafa komið nálægt þessu máli eru sammála um að komast vel til botns í því á hvern hátt er hægt að stemma stigu við eða minnka hringormafárið í íslenskum fiski. Þær niðurstöður sem þegar eru fyrirliggjandi renna ekki nægilega styrkum stoðum undir fækkunaraðgerðir þær sem menn hafa á prjónunum, enda hefur það komið fram í gögnum málsins að fækkunaraðgerðirnar voru ákveðnar og áformaðar löngu áður en menn voru nokkuð byrjaðir að rannsaka þessi mál. Svo virðist af fyrstu skýrslum svokallaðrar hringormanefndar að þar hafi verið haft fullkomið samráð og allir verið sammála um að fækka sel og síðan ætluðu þeir að nota tímann til að rannsaka til að finna svör við deilum sem kynnu að rísa í kjölfar fækkunaraðgerðanna. Þetta er ekki sá vísinda- og rannsóknagrundvöllur sem stjórnvöld ættu að reyna að standa á þegar farið er út í aðgerðir af þessu tagi.

Hins vegar herjar hringormafár ekki bara á selastofninn. Það herjar líka á þingmannastofninn. Menn virðast vera tilbúnir að renna þessu máli í gegn þrátt fyrir að það sé illa athugað og illa grundað. Ég vek athygli á að það eru allar líkur á því, að ef svo fer sem horfir, að það fari í gegn með þeim ágreiningi sem orðinn er ljós um það í Nd. og að það renni ljúflega í gegnum Ed. án þess að sjútvn. þar hafi kost á öðru en að skjóta á örfárra mínútna „stigamannafundi“ til að leggja blessun sína yfir það „proforma“ og renna því þannig niður. Ég vil minna á að fyrr í dag urðu miklar umræður um mál úr sama rn., ríkismatsmálið, þar sem menn hjuggu bæði að sjálfri lagasetningunni og reglugerðarsetningu sem kom í kjölfar hennar. Ég vil minna á að það mál var hespað í gegn á stuttum tíma og allir sem að því komu höfðu umtalsvert samviskubit og töldu það ekki nógu vel rannsakað. Það virðist reyndar vera að koma á daginn. Mér sýnist að það séu allar líkur á að nú sé Alþingi að binda sér annan líkan bagga, mál sem verður keyrt í gegn í hálfgerðu írafári án þess að menn hafi náð að athuga umtak málsins, án þess að menn hafi náð að gera sér almennilega grein fyrir því hvernig til þess er stofnað, og það geti hreinlega orðið hlutskipti okkar að standa hérna að ári og rífast um það, annaðhvort innan eða utan dagskrár, að hafnar væru einhverjar aðgerðir í þessu máli sem alls ekki væru samrýmanlegar lögunum eða menn væru mjög ósammála um. Ég vil minna á að virðing Alþingis fer ekki eftir klæðaburði þm. eða því hvernig þeir bera sig í stólum. Virðing þingsins fer eftir verkum þess og það verðskuldar þá virðingu eina sem það á skilið af verkum sínum. Ef það á að vera hlutskipti þess að ná því aldrei að afgreiða lög fyrr en í þessu fári rétt fyrir þinglausnirnar þegar augljóst er að menn verða að kyngja litlum bitum og stórum, illa og óathuguðum, þá tel ég gerða atlögu að virðingu þingsins. Þá á ég ekki við hinn ytri umbúnað sem menn beina miklu oftar sjónum sínum að. Ég held að hér séu menn að búa sér til einn böggulinn slíkan. Þetta selamál virðist ætla að fara í gegn þó að illa sé til þess stofnað, illa að því staðið og um það ríki sundurþykkja þó að hún birtist ekki endilega í atkvgr. hér.

Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að þar sem felldar hafa verið brtt. mínar og ekki hefur verið í neinu sinnt tillögum mínum um að skoða málið betur og freista þess að ná um það meiri samhug mun ég ekki greiða því atkv. Hins vegar er ég jafnsannfærður um að það á að taka á þessu máli og ég mun halda áfram, sem ég hef gert undanfarin tvö ár. bæði innan dagskrár og utan, að vekja athygli á þessu og kalla eftir aðgerðum, en ég held að hérna sé ekki rétt að staðið.