20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7015 í B-deild Alþingistíðinda. (6398)

398. mál, grunnskólar

Forseti (Karvel Pálmason):

Nú er úr vöndu að ráða hjá forseta. Meiningin var að taka fyrir 4. dagskrármálið, sem er grunnskólar, 398. mál Nd., en svo stendur nú á að ég sé að það er komin á borð þm. brtt. sem að vísu er of seint fram komin og ef ætti að taka til afgreiðslu þyrfti afbrigða við. Ég sé engan hér sem líklegur er til að mæla fyrir slíkri brtt., hvorugan flm. hennar (Menntmrh.: Forseti. Það er engin skylda að mæla fyrir brtt.) Það voru ekki orð forseta, hæstv. ráðh. Honum var það ljóst. Eigi að síður er staðreyndin sú að hvorugur flm. er hér. Ég held að nú verði að freista þess að taka þetta mál til 3. umr. Það hefur enginn kvatt sér hljóðs og er umr. þá lokið. Er einhver svo fróður að geta leiðbeint forseta með brtt.? Atkvgr. verður að vísu frestað. (Gripið fram í.) Ég hygg að það muni vera réttast. (Menntmrh.: Forseti. Ég tel að það sé ekki hægt eftir þingsköpum að loka umr. áður en afbrigða hefur verið leitað fyrir brtt. þó að ég hefði gjarnan viljað að málið hefði verið afgreitt.) Já, það eru ýmis vandamál sem koma upp núna á síðustu og verstu tímum þingsins. Ég efast nú um að það sé hægt, en þó mætti reyna að ná fram afbrigðum. (Gripið fram í: Var forseti ekki búinn að leita afbrigða?) Nei, hann var ekki búinn að því. Forseti eins og aðrir á heimtingu á leiðréttingu sinna orða og gerða. Það verður úrskurðað hér með.