20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7020 í B-deild Alþingistíðinda. (6407)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að ég fái tækifæri til að segja örfá orð í tilefni þeirrar ræðu sem hér var að ljúka.

Nú hvarflar ekki að mér að halda því á nokkurn hátt fram að mér geti ekki á orðið mistök eins og öðrum mönnum, en út af ummælum hv. þm. Halldórs Blöndals um dagskrána er þess fyrst að geta að dagskrá er ekki uppsett af mér. Hún er uppsett af aðalforseta deildarinnar og eftir henni var farið í dag undir hans stjórn áður en ég tók við.

Ég hygg að það sé misskilningur hjá hv. þm. að það hefði þurft afbrigða við til að taka fyrir 9. og 10. dagskrármálið skv. þessari dagskrá. Ekki ætla ég að fella um það neinn úrskurð.

Ég heyri að hv. þm. Halldór Blöndal vantreystir aðalforseta þessarar deildar þegar hann skírskotar til þess að leitað verði úrskurðar forseta SÞ. slíkt er nú traustið í þessum efnum. Ég vantreysti á engan hátt aðalforseta þessarar deildar til að úrskurða í þessum efnum, tel ekki að það sé nein ástæða til að leita út fyrir Nd. þar að lútandi þó að ég sé á engan hátt að bera vantraust til hæstv. forseta Sþ.

Hv. þm. minntist hér á fjarvistir þm. Það hefur enginn svo mér vitanlega sé gert athugasemdir við fjarvistir þeirra þm. sem hann var um að tala. Mál gengu hér nokkuð eðlilega þann tíma sem þeir voru fjarverandi og á engan hátt ætla ég að gera athugasemdir við það. Ég hljóp aðeins í skarðið til að reyna a. m. k. að gera tilraun til að mál gætu gengið þrátt fyrir fjarvistir manna. Ég tel mjög eðlilegt undir þessum kringumstæðum, sem hér var um að ræða, að menn væru fjarverandi stundarkorn úr degi. Líklega á það eftir að henda fleiri á þessum degi að verða fjarverandi af sama tilefni og kannske öðru þegar á daginn líður frekar, að mér skilst. Ég vísa því á bug þeim orðum hv. þm. Halldórs Blöndals, sem hann mælti áðan, að sú stund sem hann hafi verið fjarverandi hafi verið notuð til þess feluleiks að taka fyrir það mál sem hér um ræðir, 10. mál á dagskrá fundarins. Mér var ekki gerð grein fyrir því að einhver mál á þessari dagskrá, sem upp er sett af aðalforseta, væri bannað að taka til umr. Mér var ekki um það kunnugt eða það tjáð að samkomulag væri um að taka þessi mál ekki á dagskrá. Hafi slíkt samkomulag verið gert var það að sjálfsögðu rétt og skylt að ég, sem tók við stjórn deildarinnar, fengi um það vitneskju. Engin slík vitneskja hafði mér borist. Ég vísa því þess vegna algerlega á bug að hér hafi verið um að ræða nánast þinghneyksli, eins og hv. þm. komst að orði. Ég tel að hér hafi allt farið fram með eðlilegum hætti þá stund sem hv. þm. var fjarverandi og ekki sé ástæða til að halda uppi löngum umr. vegna þess að farið var eftir uppsettri dagskrá.