20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7021 í B-deild Alþingistíðinda. (6408)

Um þingsköp

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í dag er 20. júní og ég held að það væri öllum til góða að vér hv. þm. héldum ró okkar eins á þessum degi sem öðrum. Hér hefur að mínu viti ekkert stórslys skeð. Það hefur verið upplýst að þau mistök sem áttu sér stað með viðkomandi þskj. eru tæknilegs eðlis í prentsmiðju. Ég hef undir höndum það eintak sem við hv. þm. stjórnarandstöðu undirritum og það er shlj. því þskj. sem nú hefur verið prentað upp og sömuleiðis er það eintak sem er undirritað hjá skjalaverði shlj. því þskj. sem nú hefur verið prentað upp og ber nú nr. 536, enda átti grg. alla tíð við þá útgáfu frv. eins og sjá má ef þessir tveir textar eru bornir saman. Það er því hvorki við hv. flm. þessara tveggja frv. né starfsfólk Alþingis að sakast. Hvorir tveggja stóðu rétt að málum og voru með rétt eintök af viðkomandi þskj. undir höndum allan tímann, en af tæknilegum ástæðum mun útskrift af tölvum í ríkisprentsmiðjunni Gutenberg hafa valdið þeim mun sem hér var á. Hann mun nú hafa verið leiðréttur og ný þskj. hafa verið prentuð upp og bera nú viðkomandi þingnúmer. Þau eru prentuð upp vegna þess, hv. þm., að ákveðnum atriðum í þeim þurfti að breyta, það er rétt, enda eru þskj. ekki prentuð upp nema einhverju þurfi að breyta. Þannig liggur í því.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að það hefði þá verið eðlilegt að menn hefðu gert sínar athugasemdir við þessa númerun þskj. þegar þeim var útbýtt hér í dag og þegar það var tilkynnt úr forsetastóli að svo hefði verið gert, en þá komu engar athugasemdir við þetta mál. Ég tel því fullljóst að forsetar báðir, sem unnið hafa skv. dagskrá 106. fundar, hafi unnið í fullum rétti og sú dagskrá sé rétt. Þar með tel ég að engir meinbugir hafi verið á þinglegri meðferð málsins við 1. umr. og umr. þeirri sé nú lokið og atkvgr. ein eftir.

Ég bendi á að þessi mál hafa legið á borðum þm. sem þessi þingnúmer. Þess vegna þurfti eðli málsins skv. ekki afbrigði við til að taka þau á dagskrá og ég tel að forseti hafi gert rétt í því að taka þau á dagskrá þegar ekki var hægt að hafa hér umr. um önnur mál. Það lá fyrir, bæði vegna þess að ekki var hægt að koma við afbrigðum og eins vegna þess að ekki voru við frummælendur, að 10. dagskrármálið gat komið til þinglegrar umfjöllunar og það er varla hægt að lá virðulegum forsetum né þdm. að reyna að nýta þann litla tíma sem eftir lifir af þinghaldinu til að þoka málum áfram. Mér finnst það nokkuð furðulegt að menn skuli bregðast við með þessum hætti eins og hv. skrifari deildarinnar hefur gert. Ég bið hann þó að athuga að hyggist hann koma fram einhverjum athugasemdum eru tvö samhljóða mál hér á ferðinni í gegnum þingið og 1. umr. um annað þeirra er ólokið. Það er þá ekki nema velkomið að hv. skrifari noti það tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Það hlýtur að mega nokkurn veginn einu gilda við umr. um hvort málið hann talar.