12.11.1984
Neðri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

87. mál, land í þjóðareign

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér er flutt hefur áður verið í tvígang flutt á Alþingi. Tilgangur þess er að lýsa óbyggðir Íslands þjóðareign, þ.e. öll þau landsvæði sem aðrir en ríkið hafa ekki eignarheimildir fyrir, lýsa þau eign þjóðarinnar í umsjá ríkisins og Alþingis. Eignin næði til allra fasteignarréttinda, svo sem vatnsréttinda, jarðhita, námuréttinda og annarra þeirra réttinda sem bundin eru eignarrétti lands, en beitarréttindi og veiðiréttindi yrðu óbreytt frá því sem nú er.

Þegar þetta mál var hér síðast til umfjöllunar gerði ég fyrir því allítarlega grein og mun því ekki gera jafnítarlega grein fyrir því nú, þó ég telji ástæðu til að árétta ýmis atriði í þessu sambandi.

Það er ekki ýkja langt síðan dómur gekk í Hæstarétti um mál af þessu tagi. Samkvæmt þeim hæstaréttardómi á enginn beinan eignarrétt að afréttum, en Alþingi getur ákvarðað eignarrétt ríkisins með lögum og yrði það ekki talið eignarnám. Í þessum hæstaréttardómi er nánast bent á það að löggjöf skorti um þetta efni.

Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður hefur ritað um þetta mál sérstaklega grein í tilefni af 75 ára afmæli Sigurðar Ólasonar hrl. sem flutti einmitt það mál sem hér um ræðir af hálfu fjmrn. fyrir hönd ríkissjóðs. Greinin var endurprentuð í Morgunblaðinu 26. jan. 1982. Ég held að það sé vel við hæfi, enda er það gert með leyfi greinarhöfundar, Gunnlaugs Claessens ríkislögmanns, að rekja meginefni greinarinnar með leyfi forseta:

„Deiluefnið hefur verið kennt við Landmannaafrétt“ — þ.e. það deiluefni sem hér um ræðir og hæstaréttardómur hefur gengið í — „og varðar spurninguna um hinn beina eignarrétt að þessu landsvæði. Jafnframt hefur dómurinn almenna þýðingu varðandi það álitaefni, hver teljist réttur eigandi almenninga og öræfa landsins.

Hér verður ekki farið út í flókin réttarfarsatriði, sem mjög settu mark sitt á gang málsins. Málið hafði áður hlotið umfjöllun Hæstaréttar vegna formsástæðna, en efnisdómur var kveðinn upp í Hæstarétti 28. des. 1981.

Í samráði við landbrh. höfðaði fjmrh. f.h. ríkissjóðs eignardómsmál fyrir aukadómþingi Rangárvallasýslu í ársbyrjun 1975. Krafa stefnanda var sú, að ríkissjóði yrði tildæmdur hinn beini eignarréttur að svokölluðum Landmannaafrétti. Fyrir dóm var stefnt öllum þeim sem andmæla vildu eignartilkalli ríkisins að umræddu landsvæði.

Til andmæla gáfu sig fram hreppsnefnd Landmannahrepps f.h. hreppsins, hreppsnefnd Holtahrepps f.h. hreppsins, eigendur og ábúendur jarða í Holtahreppi, hreppsnefnd Rangárvallahrepps f.h. hreppsins og eigendur og ábúendur jarðanna Næfurholts og Hóla í Rangárvallahreppi og hreppsnefnd Skaftártunguhrepps f.h. hreppsins. Allir þessir aðilar mótmæltu eignartilkalli ríkisins á þeim grundvelli, að þeir væru sjálfir eigendur hins umrædda landsvæðis. Fyrir héraðsdómi urðu málalok þau, að meiri hluti réttarins (tveir dómarar af þrem) féllust á kröfu fjmrh., og viðurkenndu eignarrétt íslenska ríkisins að Landmannaafrétti.

Allir áðurgreindir heimaaðilar áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar. Kröfðust þeir þess að dóminum yrði hrundið og synjað um viðurkenningu á eignarrétti ríkisins að afréttinum.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að geta þess, að í byrjun sjötta áratugarins höfðaði Landmannahreppur mál út af veiðirétti í vötnum og vatnsföllum á Landmannaafrétti. Málsaðilar í því máli voru flestir þeir sömu og urðu málsaðilar í því máli, sem dæmt var í des. 1981 og áður eru taldir upp. Í dómi Hæstaréttar í þessu eldra máli, sem gekk hinn 25. febr. 1955, segir m.a. svo:

„Ekki hafa verið leiddar sönnur að því, að hreppsfélögin sjálf hafi öðlast eignarrétt að afréttinum, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð né með öðrum hætti ... Eins og notkun afréttarlandsins hefur verið háttað, hafa hreppsfélögin, annað eða bæði, ekki unnið eignarhefð á því.

Þar sem framangreindir afréttaraðilar hafa samkvæmt framansögðu ekki beinan eignarrétt á Landmannaafrétti, koma hér til álita ákvæði 5. gr. laga nr. 112/1941, um rétt til veiði í vötnum á afréttum ...“

Í síðari hæstaréttardómnum, þ.e. þeim sem féll í des. 1981, segir svo m.a.:

„Málflutningur þeirra, er andmælt hafa kröfum ríkisins í máli því, sem hér er til úrlausnar, lýtur að því, að þeir eigi afréttarlandið og gangi eignartilkall ríkisins í berhögg við það. Um þessa málsvörn er þegar dæmt í dómi Hæstaréttar frá 25. febr. 1955, að því er varðar framangreinda aðila þessa máls ...

Í máli þessu verða því andmæli framangreindra aðila gegn eignartilkalli ríkisins, sem á því eru reist, að þeir eigi afréttarsvæði það, sem málið lýtur að, ekki tekin til greina.“ Ég endurtek: „Í máli þessu verða því andmæli framangreindra aðila gegn eignartilkalli ríkisins, sem á því eru reist, að þeir eigi afréttarsvæði það, sem málið lýtur að, ekki tekin til greina.“

Þannig segir í dómi Hæstaréttar. Og lögmaðurinn heldur áfram:

„Eignarréttur heimamanna að afréttinum, hvort heldur hreppsfélaganna eða eigenda og ábúenda jarða, er þannig ekki fyrir hendi. Þess ber hins vegar að geta, að í þessu dómsmáli viðurkenndi stefnandi, fjmrh., rétt byggðamanna til upprekstrar og annarra afréttarnota, sem lög leyfa eða venjur eru fyrir.

Því næst kom til úrlausnar í dóminum, hvort fjmrh. f.h. ríkisins hefði gert viðhlítandi grein fyrir eignarrétti sínum að þessu afréttarsvæði, þannig að eignardómur yrði kveðinn upp skv. 220. gr. laga nr. 85/1936.

Svo fór, að Hæstiréttur varð ekki sammála í afstöðu sinni til þess atriðis: Meiri hlutinn, þ.e. þrír dómarar af fimm, taldi óyggjandi sönnun fyrir eignarrétti ríkisins ekki hafa tekist og tók því ekki til greina kröfu fjmrh. f.h. ríkisins um viðurkenningu á eignarrétti til handa ríkinu á margnefndu landsvæði. Minni hlutinn taldi hins vegar öll skilyrði uppfyllt til að fallast mætti á viðurkenningarkröfur ríkisins.“

Og lögmaðurinn heldur áfram:

„Í forsendum meirihlutans kom fram, að Alþingi hafi ekki sett lög um þetta efni þó að það hefði verið eðlileg leið til að fá ákvörðun handhafa ríkisvalds um málefnið. Í framhaldi af því segir efnislega, að um eignartilkall ríkisins sé þess fyrst að geta, að eigi hafi af þess hálfu verið settar fram fullnægjandi röksemdir fyrir því, að ríkið hafi eignast landsvæði þetta þegar við stofnun allsherjarríkis á landi hér. Lög þjóðveldisaldar veiti þeirri skoðun eigi stoð eða önnur gögn frá því réttarsögutímabili. Síðan sagði, að gögn fyrir því, að ríkið hafi eignarrétt á þessu landsvæði fyrir eignarhefð, séu eigi haldbær. Þá er þess getið, að skráðar réttarreglur um eignarréttarlega stöðu afrétta séu af skornum skammti og hið almenna eignartilkall í skilningi einkaréttar, sem ríkið hafi uppi í þessu máli, styðjist eigi við slíkar reglur. Einstök lagaákvæði, sem fjmrh. f.h. ríkisins ber fyrir sig í málinu, svo sem námulög, vatnalög og eldri lög um nýbýli, veiti eigi slíkri almennri reglu stoð.

Í niðurlagi forsendna meiri hlutans segir:

„Hins vegar verður að telja, að handhafar ríkisvalds, sem til þess eru bærir, geti í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu landsvæðis þess, sem hér er um að ræða, en líta ber til þess, að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa viðurkennt „rétt byggðarmanna til upprekstrar og annarra afréttarnota, sem lög eða venjur eru fyrir.“ Um það efni verður þó eigi fjallað hér frekar, eins og mál þetta horfir við.“

Niðurstaðan er nánast sú, að enginn eigi beinan eignarrétt að afréttinum. Eignarrétti heimamanna er alfarið synjað og meiri hlutinn telur ríkið ekki hafa sannað sinn rétt nægjanlega. Niðurlag forsendnanna er hins vegar athyglisvert. Það er ljóst, að Alþingi getur ákvarðað eignarrétt ríkisins með lögum, og slík löggjöf yrði ekki metin sem eignarnám, a.m.k. ekki gagnvart þeim sem voru aðilar þessa máls.“

Þetta er grein Gunnlaugs Claessens ríkislögmanns. Og ég ítreka enn og aftur: Samkvæmt niðurstöðum Hæstaréttar og samkvæmt þessari grein lögmannsins, sem ég hef hér lesið, er ljóst að niðurstaðan er nánast sú að enginn eigi eignarrétt á afréttinum. Eignarrétti heimamanna, ef ég má orða það svo, er alfarið hafnað. Og síðan skortir á að ríkið geti sannað eignarrétt sinn, að áliti meiri hluta hæstaréttardómara. Minni hlutinn, tveir af fimm, telur að þetta sé eign ríkisins. En það athyglisverðasta af þessu öllu er það að meiri hlutinn telur að handhafar ríkisvalds, sem til þess eru bærir, geti í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu landsvæðis þess sem hér er um að ræða. Vel að merkja, hér er gert ráð fyrir því að beitarréttur og annar sá réttur honum skyldur, sem helgaður er af hefð, gildi áfram.

Það frv. sem hér er flutt er beinlínis flutt í samræmi við þennan hæstaréttardóm og tilgangur þess er sá — og sá einn að lýsa þær óbyggðir, sem ekki eru eignarheimildir fyrir, eign þjóðarinnar í heild, í umsjá ríkisins. Og ég vil endurtaka að í raun og sannleika hefur Hæstiréttur beðið um að lög af þessu tagi yrðu sett.

Um þetta frv. vil ég enn fremur segja það, að það er í rauninni þáttur í stefnumörkun Alþfl. um sameign þjóðarinnar á landi sínu. Hér voru fyrr á árum fluttar þáltill. á þessa lund, í fyrstu af Braga Sigurjónssyni alþm. og reyndar í fyrsta skipti árið 1970. Þær till. voru síðan endurfluttar í breyttri mynd árið 1972 og 1976, en náðu í ekkert skiptið fram að ganga. Það varð hins vegar að ráði hjá Alþfl. fyrir nokkrum árum að í stað þess að halda áfram að flytja þessar þáltill. skyldum við flytja nokkur lagafrv. sem vörðuðu einmitt þetta efni, þ. á m. lagafrv. um sameign þjóðarinnar á djúphita í jörðu, en frv. um það efni höfðu líka verið flutt áður bæði af þm. Alþfl. og þm. annarra flokka.

Ég vil beina því til hv. deildar, sérstaklega með tilliti til þess dóms sem þegar hefur gengið í Hæstarétti, að taka nú þetta frv. til raunverulegrar afgreiðslu en láta það ekki sofna í n. eins og gerst hefur áður.

Í framkvæmd mundi þetta þýða, eins og ég hef sagt, að allar óbyggðir Íslands yrðu lýstar þjóðareign ásamt flestum eða öllum afréttum og hálendissvæðum. Á þeim svæðum mundi íslenska þjóðin gera tilkall til allra fasteignarréttinda, sem bundin eru eignarrétti lands, en beitarréttindi, sem fylgja einstökum bújörðum, upprekstrarfélögum eða sveitarfélögum, stæðu óskert, svo og veiðiréttindi og allar aðrar eignarheimildir annarra en ríkisins sem sönnun er færð fyrir.

M.ö.o. er ekki í frv. gerð tillaga um eignaupptöku, um það hefur Hæstiréttur þegar úrskurðað, né heldur eignarnám á landsvæði, hlunnindum eða öðrum eignarréttindum sem eru eign annarra en ríkisins. Samþykkt frv. mundi engu breyta um það efni. Einasti tilgangur frv. er sá að lýsa því yfir að land og landsréttindi, sem aðrir eigendur finnast ekki að, skuli eftirleiðis talin eign þjóðarheildarinnar og um þá þjóðareign verði settar ákveðnar reglur sem tryggi bæði rétt og skyldur almennings gagnvart slíku landi og landgæðum.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vænti þess að það sé þdm. allkunnugt en ég legg áherslu á nauðsyn þess að Alþingi setji nú lög um þetta efni og taki þetta mál til alvarlegrar umfjöllunar og afgreiðslu. Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hæstv. fjh.- og viðskn.