20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7023 í B-deild Alþingistíðinda. (6411)

Um þingsköp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. forseti ætlar að gefa smáyfirlýsingu og má vera að ég þurfi að segja nokkur orð um hana þegar hún hefur heyrst.

Ég hef í höndum plagg, sem hæstv. húsnæðisráðh. afhenti mér, sem átti að vera sérstakt mótboð af hans hálfu við frv. sem Sjálfstfl. lagði fram í ríkisstj. varðandi húsnæðissamvinnufélög og búsetarétt. Þetta plagg er málamiðlun hæstv. húsnæðisráðh. varðandi þetta mál sem hann afhenti Sjálfstfl. Það vill svo til að í þeirri grein sem ég er að tala um, í 96. gr. í þessari málamiðlun hæstv. ráðh., hefst einmitt b-liður með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Með lánum skv. 11 . og 58. gr. þessara laga.“ Þetta er málamiðlunartill. hæstv. húsnæðisráðherra. Ætlar svo hæstv. forseti að lýsa því yfir í þessari deild að málamiðlunartill. hæstv. húsnæðisráðh. sé ekki meira virði en svo að hægt sé að hverfa til upphaflegs frv. undir orðunum „Prentað upp“ og þau séu undirstrikuð? Er svona einfalt að leggja fram málamiðlun í þessu máli að hægt sé að leika sér bókstaflega með pappírana? Það er grundvallarmunur á þessu tvennu. Það er grundvallarmunur á hvort gert sé ráð fyrir því að búsetafélög taki lán eftir 11. gr. húsnæðislaganna eða eftir 33. gr. Það er undir engum kringumstæðum hægt að tala um að þetta séu pennaglöp. Ég get undir engum kringumstæðum fallist á að það sé hægt að heimfæra þetta undir það að einhverjir prentarar í Gutenberg hafi búið þetta til af sjálfsdáðum. Það væri meiri tilviljunin, að þeim hafi orðið á í messunni þegar þeir prentuðu frv. og skella inn 11. gr. í staðinn fyrir 33. gr. fyrir réttan og sléttan misgáning. Auðvitað er slíkt óhugsandi með öllu. Auðvitað er kjarni málsins sá að þeir menn sem lögðu fram hin fyrri frumvörp höfðu ekki lesið þau, þeir vissu ekki hvað í þeim stóð. Þetta voru prentuð frumvörp. Þeir voru í kapphlaupi hvor við annan um hvorir flyttu frv. fyrr. Við vissum það í þessum sölum að þeir voru að metast um hver hefði þingskjalsnúmer á undan. Þetta er kjarni málsins. Þess verður svo beðið með nokkurri eftirvæntingu, herra forseti, hvort það séu bara pennaglöp að setja þarna inn 11. gr. Það er algjör merkingarmunur á frv. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hið síðara frv. verði undir nýju málanúmeri.

Út af því sem hæstv. 1. varaforseti sagði er það öldungis rétt að í dagskrá þessa fundar er ekki talað um að það þurfi leyfi fyrir umr., enda datt mér aldrei annað í hug en að þar væri verið að tala um hin eldri frumvörp. Síðan sá ég það á borði hæstv. forseta að hann hafði leyft umr. um þetta undir þessu málanúmeri, 536, um hið nýrra málið.

Nú getur alltaf komið fyrir að það verið prentvilla á dagskrá. Það kemur iðulega fyrir að forseti deildarinnar þurfi að leiðrétta prentaða dagskrá og er ekkert nýtt. Þess vegna bar þeim forseta sem sat í stóli annað tveggja að hefja umr. um hið fyrra frv. eða leita afbrigða — leita heimildar deildarinnar fyrir því að sama málanúmerið yrði þegar um svo skýran efnismun á frumvörpunum er að ræða og þarna er. Það er ekki hægt að hugsa sér meiri efnismun í sambandi við húsnæðismálin en þann hvort menn fái lánarétt eftir 11. gr. eða 33. gr. Það er ekki hægt að hugsa sér meiri mun en þann hvort menn fái 29% lán með 3.5 % vöxtum eða hvort menn fái 80% lán með 0.5% vöxtum. (Grípið fram í: Er þetta um þingsköp?) Þetta er um þingsköp. (SvG: Jæja já, það er fróðleg umr. um þingsköp.) Já, ég hef lært það af formanni Alþb. hvernig á að tala um þingsköp ef við liggur og get lært fljótt ef kennarinn er góður. Þetta vil ég að fram komi.

Síðan óska ég þess, herra forseti, til þess að öllu réttlæti sé fullnægt, að fá að heyra hvernig þm. Framsfl. mæla fyrir frv. á eftir og það verði tekið á dagskrá þegar í stað að loknum þeim atkvgr. sem fyrir liggja þannig að hægt sé að hefja almenna umræðu um húsnæðismálin og hægt að tala um búsetaréttinn á breiðum grundvelli.