20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7024 í B-deild Alþingistíðinda. (6412)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Út af öllum þessum umr. sem hér hafa farið fram þykir forseta rétt að gera athugasemdir og þær athugasemdir varða fyrst og fremst það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur haft fram að færa í þessu máli.

Forseti vill taka það fram að það er almenn regla hér í þinginu, sem hver þm. veit að er fyrir hendi, að ef mistök verða á um prentun þskj. þykir sjálfsagt mál að þau séu prentuð upp. Og ég vil halda því fram að það skipti ekki öllu máli hver þessi mistök eru. Það skiptir ekki máli í sambandi við eðlismun mistakanna hvort þau eru meiri eða minni. Að því leyti til sé ég ekki neitt rangt eða óþinglegt hafi farið fram hér við það að þessi leiðrétting var gerð, að það voru lögð fram þau þskj. sem hv. flm. frv. vildu að hér kæmu fram. Það hefur m. a. s. komið skýring á því frá einum hv. flm. þessara þskj. í hverju þessi mistök lágu. Þetta varðar þá almennu reglu sem hér gildir um að prenta megi upp þskj.

En ég vil líka, vegna þess að það hefur verið fundið að fundarstjórn fyrri varaforseta hér í dag, segja að ég sé enga ástæðu til að finna að þeirri fundarstjórn. Forseti hefur og sá forseti sem hér stýrði fundi í dag haft fullkominn rétt til að taka þau mál fyrir sem á dagskránni voru og það var í sjálfu sér ekki neitt samkomulag um að þau mál sem hér á dagskránni eru kæmu ekki til umræðu ef tími ynnist til eða tóm yrði á fundinum til þeirra hluta. Það er þess vegna rangt með farið, sem mér virtist koma fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að það hefði verið samkomulag um að þessi mál, sem um ræðir, og kannske fleiri kæmu alls ekki til umr. Þetta er ekki rétt með farið.

En hinu er sjálfsagt rétt að gera þd. grein fyrir að um það var rætt að tími þd. til starfa væri orðinn það naumur að rétt þótti að gera samkomulag um tiltekin mál, sem á dagskránni eru, hefðu sinn forgang og þau mál eru 1., 2., 3. og 4. dagskrármál. Um þetta hélt ég að væri ekki nokkur vafi eða nokkur þyrfti að velkjast í vafa um að svo er.

Þær athugasemdir sem hér hafa komið fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. um þetta mál eru því ekki á rökum reistar. Það var fullkomlega heimilt fyrir flm. þeirra frumvarpa sem um ræðir að prenta upp þau þskj. sín, ekki síst þegar það er komið í ljós að það voru ýmiss konar tæknileg mistök, sem þarna áttu sér stað, sem hv. flm. gátu ekkert að gert eða við gert. Þetta er skoðun forseta þessarar deildar og geta menn svo eftir þessa yfirlýsingu haldið áfram að ræða þingsköp, en ég vona hins vegar að svo þurfi ekki að vera. Eigi að síður hafa nú allmargir beðið um orðið og ég mun að sjálfsögðu veita hæstv. félmrh. orðið um þingsköp og síðar tveimur hv. þm. sem þegar hafa beðið um orðið. En þetta er álit forseta þessarar deildar og verður það að ráðast hvaða skoðun eða hvaða gildi hv. þdm. leggja í orð forseta.