20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7025 í B-deild Alþingistíðinda. (6413)

Um þingsköp

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu hafa orðið mistök í sambandi við meðferð þessa máls hér í Nd. þar sem tekið er mál á dagskrá sem reiknað var með að yrði ekki á dagskrá og enn fremur var ekki gert viðvart um það til að a. m. k. ráðh. húsnæðismála gæti verið viðstaddur til að hlusta á þær umr. þó að það kannske hefði ekki breytt neinu í höfuðdráttum.

Ég vil rifja upp vegna þess sem komið hefur fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að við afgreiðslu húsnæðislaga á síðasta ári varð samkomulag um það milli stjórnarflokkanna að skipa sérstaka nefnd til að semja frv. til l. um húsnæðissamvinnufélög og búsetarétt. Í þessa nefnd voru skipaðir fulltrúar flokkanna. Það voru Jóhann Einvarðsson, sem var formaður nefndarinnar, Friðrik Friðriksson hagfræðingur, Magnús L. Sveinsson skrifstofustjóri, Páll R. Magnússon húsasmíðameistari og Stefán Guðmundsson alþm. Sigurður Magnússon kjarneðlisfræðingur tók sæti Friðriks Friðrikssonar 19. febr. s. l.

Þessi nefnd skilaði frv. til ráðh. í lok aprílmánaðar s. l. og þann 30. apríl var þetta frv. lagt fyrir ríkisstj. og vísað til þingflokka stjórnarflokkanna. Það þarf ekki að lýsa því hér að þetta mál var síðan til meðferðar. Þingflokkur Framsfl. afgreiddi þetta mál strax, samþykkti það til framlagningar fyrir sitt leyti, en þingflokkur Sjálfstfl. ekki. Það var því ljóst núna þegar komið var fram í júnímánuð að þetta mál mundi ekki fá þá afgreiðslu að hægt væri að afgreiða það á þessu þingi. (Forseti: Ég vil biðja hæstv. ráðh. að vera stuttorðan og ræða um galla á þingsköpum.) Ég skal reyna það, herra forseti, ég vil aðeins lýsa aðdraganda á þessu máli.

Það var ákveðið af minni hálfu þegar sýnt var að ekki yrði hægt að leggja þetta frv. fram sem stjfrv. hér á Alþingi, að leggja þetta mál fyrir þá mþn., sem ákveðið er að skipa fulltrúum frá öllum þingflokkum og ég hef óskað eftir tilnefningu í, og gera ráð fyrir að hún mundi skoða sérstaklega frv. þessarar umræddu nefndar milli þinga til að hægt væri að leggja það fram á haustþingi. Það sem hefur síðar skeð er það, sem allir vita, að einstaka þm. hafa ákveðið að taka þetta frv., sem er samið af þessari nefnd, og gera það að sínu.

Ég ætla ekki að ræða það hér hvernig þessi mistök urðu, en vegna ummæla hv. 2. þm. Norðurl. e. vil ég benda á að það var reynt og hefur verið reynt allar götur síðan nefndin skilaði þessu frv. og formaður nefndarinnar, sem er Jóhann Einvarðsson, hefur reynt ítrekað að ná samkomulagi og ekki tekist. Það er ósköp einfalt. Þess vegna varð niðurstaðan sú að ekki var grundvöllur til að leggja þetta frv. fram sem stjfrv. og þar af leiðandi var ekki möguleiki á að leggja frv. fram í þeirri myndi sem nefndin gekk frá því og það liggur fyrir frá minni hálfu til mþn. sem ég talaði um. Ég ber enga ábyrgð á því hvernig einstakir þm. leggja þetta frv. fyrir Alþingi í dag.