12.11.1984
Neðri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

87. mál, land í þjóðareign

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Frv. þetta er, að ég ætla, flutt nálega óbreytt frá því sem var hér á ferðinni á síðasta Alþingi. Mál af þessu tagi hafa verið flutt á vegum Alþfl., eins og fram kom hjá hv. 1. flm., allt frá árinu 1970. Í flest skipti þegar slík mál hafa verið flutt hef ég tekið til máls. Stundum hef ég, á meðan þáltill. voru á ferðinni, talað með svipuðum hætti og hv. 1. flm., óskað eftir því að Alþingi tæki nú rögg á sig og afgreiddi málið og þá í því skyni að fella það. En ég hef nú held ég ekki tekið svo stórt upp í mig síðan þessu var breytt yfir í frv. Það má hins vegar vera leiðigjarnt að tala í máli eins og þessu þing eftir þing og vafalaust væri ástæða til þess að Alþingi tæki á þessu máli á einhvern hátt. Það var hins vegar einkanlega ein setning í máli hv. 1. flm., sem hann endurtók að ég ætla þrisvar sinnum, sem varð til þess að ég sá mér ekki fært annað en að koma hér einu sinni enn upp í þennan ræðustól.

Hv. flm. mælti svo að niðurstöður Hæstaréttar hefðu sannað að um engan beinan eignarrétt væri að ræða að afréttum og vitnar síðan til greinar Gunnlaugs Claessens ríkislögmanns þar sem hann segir þetta á þennan máta: „Niðurstaðan er nánast sú að enginn eigi beinan eignarrétt að afréttinum.“ Er þar átt við einn afrétt, þ.e. Landmannaafrétt. Þessa niðurstöðu í grein Gunnlaugs Claessens alhæfir síðan 1. flm. þessa máls hér og þrítekur fram í sinni ræðu, eins og hann sagði orðrétt, „að um engan beinan eignarrétt er að ræða að afréttum.“

Það er nauðsynlegt að hafa það í huga að eignarheimildir varðandi afrétti á landinu eru mjög mismunandi. Ég tel að það sé fjarri lagi, sem hér hefur verið haldið fram, að um afrétti landsins séu ekki til gildar eignarheimildir og þess vegna muni frv., sem afgreitt yrði sem lög í þessu formi, fela það í sér að hálendi landsins og óbyggðir allar yrðu lýst þjóðareign. Þetta er að mínum dómi rangt og sumpart er það notað að víkja til orðalagi til þess að reyna að koma því inn hjá hv. þingdeild að hér sé farið með eins konar niðurstöðu Hæstaréttar.

Ég verð auðvitað að segja það, eins og ég held ég hafi nú komist að orði hér á Alþingi þegar um þetta mál var rætt á síðasta þingi, að það má auðvitað vera nokkuð óljóst hvað t.a.m. Hæstiréttur metur fullgildar eignarheimildir. Ég hafði þá yfir orð eftir kunnum lögfræðingi sem gáfu mér tilefni til þess að vera með miklar efasemdir um niðurstöðu dómstóla um þessi efni. Ég hafði hlustað á mjög kunnan lagaprófessor flytja erindi um eignarrétt á landi þar sem hann komst í raun að þeirri niðurstöðu að eignarheimildir, skjallegar eignarheimildir, sem gefnar væru út og þinglýstar samkvæmt þeim kröfum sem í gildi væru hverju sinni, kynnu að vera markleysa vegna þess að ekki væri hægt að sanna að þetta tiltekna landsvæði hefði gengið á milli eigenda allt frá landnámstíð þannig að í hvert skipti hefði verið um lögleg afsöl að ræða. Og ef lagaprófessorar leita svo langt til þess að lýsa vantrausti og upphefja gildi eignarheimilda, sem gefnar eru út lögformlega og skjallega miðað við þær reglur sem verið hafa í gildi nú síðari áratugi eða kannske allt að einni öld, þá fer mér að þykja nóg boðið. Þess vegna eru þessar efasemdir mínar enn kynntar hér. Það kynni að mega teljast með ólíkindum hvaða niðurstaða yrði ef skorið væri úr um það atriði sem segir hér í frv.: „þar sem eignarheimildir finnast ekki fyrir.“

Nú vitum við um marga afrétti á landinu þar sem slíkar skjallegar eignarheimildir eru til staðar, þinglýstar og lögformlega frá gengnar miðað við það sem gerðar hafa verið kröfur um á þeim tíma. Það væri sannarlega einkennilegt ef þær væru upphafnar vegna þess að ekkert væri hægt að sanna um eigendaskipti á t.a.m. 13. og 14. öld. Þá fer málið mjög að vandast.

Ég er að sjálfsögðu ekki lagamaður eins og allir vita, en það hefur komið mér mjög á óvart að dregið skuli í efa að lög um hefð nái yfir eignarréttindi á óbyggðum og afréttum. Ég ætla ekki að ræða það frekar hér, en það vita sjálfsagt mjög margir og vafalaust allir hv. þm. í þessari deild hvernig þau ákvæði eru. Og það er mjög einkennilegt ef það er niðurstaða Hæstaréttar að lagaákvæði um hefð skuli ekki gilda þegar í hlut eiga afréttarlönd.

Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma að þessu sinni að öðru leyti en því, að ég er því ekki samþykkur sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að fjmrn. skuli annast meðferð og eignarhald landsvæða í eigu ríkisins, og tel betur komið og eðlilegra að það verði sem verið hefur á hendi landbrn. Ég tel einnig að með þessu frv. væri stefnt að mjög miklu starfi fyrir lögfræðinga með tilheyrandi kostnaði og miklum deilum og málaferlum sem ég held að við höfum ekki neina sérstaka þörf fyrir og hefðum annað þarfara að sýsla en að efna til slíks ófriðar sem af því mundi leiða. Ég tel þó jafnframt að landsvæði þau sem hér er verið að ræða um séu hvergi betur komin en í höndum þeirra sveitarfélaga sem næst liggja og nýtt hafa þessar afréttir frá því að land okkar byggðist og ekki þörf að breyta þar um, og koma þeim að formi til í hendur ríkisins.

Ég skal ekki lengja mál mitt. Aðeins var það þessi setning, sem mér fannst gera það óhjákvæmilegt að ég kæmi hér í ræðustól, sem hv. 1. flm. þessa máls sagði í þrígang, að niðurstaða Hæstaréttar væri sú að í raun væri um engan beinan eignarrétt að ræða að afréttum.