20.06.1985
Neðri deild: 106. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7028 í B-deild Alþingistíðinda. (6423)

398. mál, grunnskólar

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Þegar sú brtt., sem borin var upp í gær, var samin leit ég svo á að að þeirri brtt. samþykktri væri 2. gr. frv. sjálffallin þar sem með 1. gr. væri þá búið að samþykkja fræðsluskyldu í níu ár, en í 2. gr., eins og málið liggur fyrir, stendur að grunnskólinn sé tíu ára skóli. Með þeirri brtt. sem hér er flutt er lagt til að 2. gr. í frv. falli brott eins og Páll Dagbjartsson, hv. 1. þm. Norðurl. v., flutti það. Með brottfalli þeirrar greinar er 2. gr. í grunnskólalögunum óbreytt eins og hún hefur verið, þ. e. þar er gengið út frá því að grunnskóli sé níu ára skóli.