20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7031 í B-deild Alþingistíðinda. (6440)

493. mál, sparisjóðir

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Nefndin hefur ekki getað gefið sér langan tíma til að ræða þetta mál, það verður að segjast eins og er. Þessi mál eru nýlega komin til deildarinnar og í nefndina. Það er auðvitað af ýtrustu neyð, vegna þess að þingið er komið í algert tímahrak, að menn leyfa sér það með vissum kinnroða að afgreiða mál með slíkum hraða hér í gegnum deildina að ekki gefst eðlilegt tækifæri til að fara í gegnum mál og athuga þau nákvæmlega.

Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara en styð málið í meginatriðum. Ég tel að viss ákvæði frv. séu mikilvæg og þá einkum ákvæðin um tryggingarsjóð sparisjóða og um lánasjóð sparisjóða. Þessi ákvæði eiga að gera sparisjóðunum kleift að standa af sér stórviðri miklu frekar en að óbreyttum lögum og geta því veitt fólki almennt og viðskiptavinum sparisjóðanna töluvert meira öryggi en það býr við nú. Hins vegar eru í þessu frv. sams konar ákvæði varðandi vaxtaákvarðanir og eru í frumvarpsdrögum að lögum um viðskiptabanka, þ. e. sparisjóðunum er ætlað að taka vaxtaákvarðanir á eigin spýtur og þó með þeirri undantekningu að sparisjóðunum mun heimilt að hafa samráð sín í milli um vaxtaákvarðanir, en það verður bönkum ekki heimilað. Við Alþb.-menn erum algerlega andvígir auknu frelsi í ákvörðunum um vexti og teljum raunar mjög brýnt að vextir verði takmarkaðir miklu meira en nú er og komið í veg fyrir það vaxtabrjálæði sem tröllríður þjóðfélaginu.

Í öðru lagi er það megingalli á þessu máli að við skulum vera að afgreiða hér frv. um sparisjóði án þess að búið sé að setja nýja löggjöf um Seðlabankann sem er grundvallarstólpi í þessu kerfi öllu saman og hefði átt að meðhöndlast hér á Alþingi á undan bönkum og sparisjóðum þannig að menn vissu að hverju þeir gengju varðandi bankakerfið, varðandi viðskiptabankana og sparisjóðina eftir að hafa fjallað um Seðlabankann. En þessu er ekki að heilsa. Þetta er afturfótafæðing að þessu leyti að seðlabankafrv. liggur eftir. Ég tel að það sé mjög miður. Með þessum fyrirvörum er ég samþykkur frv. en áskil mér að sjálfsögðu rétt til að fylgja brtt.