20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7041 í B-deild Alþingistíðinda. (6449)

423. mál, viðskiptabankar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. með fyrirvara og það geri ég einnig hvað varðar nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um sparisjóði. Ég vil útskýra þennan fyrirvara hér.

Þessi fyrirvari er þannig til kominn að eins og hv. þdm. vita hafa þessi frumvörp tvö, frv. til l. um viðskiptabanka og frv. til l. um sparisjóði, fengið nánast enga umfjöllun í þessari hv. deild. Hæstv. viðskrh. mælti fyrir þessum frumvörpum á fundi deildarinnar í gær og síðan fundaði fjh.- og viðskn. um málin í morgun. Þau eru síðan komin hér til 2. umr. og atkvgr. sólarhring síðar.

Í fljótu bragði virðist ýmislegt gott vera í þessum frv. báðum, reyndar einnig ýmislegt slæmt. En það liggur í augum uppi að það er engin leið að meta það af einhverri skynsemi og þannig að eitthvert vit sé í hvernig þessi mál eru í raun vaxin. Það er ekki nokkur lifandi leið. Ég er því með þennan fyrirvara á báðum nál. vegna þess að ég mun sitja hjá við afgreiðslu málanna. Ég gerði grein fyrir þessari afstöðu minni í fjh.- og viðskn. í morgun og ég vildi að hún kæmi einnig fram hér.