12.11.1984
Neðri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

88. mál, orkulög

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. er af sama toga, má segja, eins og hið fyrra frv., sem ég mælti hér fyrir rétt áðan, um sameign þjóðarinnar á landinu. Hér er um að ræða þá stefnumörkun að sú orka sem fólgin er í háhitasvæðum sé sameign þjóðarinnar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að verulegt átak þarf til að virkja háhitasvæðin. Það er kostnaðarsamt fyrirtæki. Ekki verður séð nein réttlæting fyrir því að sumir menn skuli geta gerst auðugir á því að landskorpan undir fótum þeirra sé eitthvað þynnri á þeim stað þar sem þeir búa en annars staðar. Þess vegna virðist liggja beint við þegar af þessum tveimur ástæðum að háhitasvæði séu lýst þjóðareign í umsjá ríkisins.

Frv. um þetta efni hafa áður verið flutt hér á þingi. Það frv. sem ég geri hér grein fyrir hefur verið flutt á tveimur síðustu þingum og er að stofni til eldra eins og greint er frá í grg. með frv. En efnisþáttur frv. er sá að djúphiti á háhitasvæðum yrði almannaeign, en jarðvarmi á lághitasvæðum og yfirborðshiti yrði hvarvetna háður einstaklingsrétti landeigenda.

Sú veigamikla breyting hefur verið gerð í þessu frv. til l. frá frv. sem voru flutt hér fyrr á árum að hér er gert ráð fyrir því að sveitarfélög eða samtök sveitarfélaga eða fyrirtæki þeirra, sem hafa keypt sér land með vinnslu háhita í huga eða rétt til vinnslu hans fyrir gildistöku laganna, haldi þessum rétti sínum óskertum. Við flm. lítum sem sagt svo á að sveitarfélögin séu í þessu tilviki fulltrúar þjóðarinnar, fulltrúar almannavaldsins.

Ef sveitarfélög eða aðilar á þeirra vegum hafa sem sagt keypt jörð eða hluta úr jörð með vinnslu háhita í huga eða hafið vinnslu háhita á háhitasvæði áður en þessi lög taka gildi þá skal í engu við því hrófla og sá réttur haldast óskertur. En að öðru leyti gildi um land á háhitasvæði að sveitarfélög skuli hafa forgangsrétt að háhitasvæði á sínu landsvæði þó að það sé í umsjá ríkisins.

Eins og ég gat um í upphafi hefur þetta frv. áður verið flutt og er í efnisatriðum tiltölulega einfalt, nefnilega að háhiti skuli vera þjóðareign. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða öllu frekar um það nema hvað ég vil ítreka enn einu sinni að þetta er, rétt eins og varðandi það frv. sem ég var að mæla fyrir hér áðan, efnisatriði sem skortir lög um á Íslandi. Um þetta eru engin lög á Íslandi. Um þetta efni skal vitnað til prófessors Ólafs Lárussonar en hann segir einmitt um þetta atriði í bók sinni Eignarréttur á bls. 46: „Ekki er í íslenskum lögum ákvæði um takmörk eignarráða landeiganda niður á við, en talið hefur verið að eignarráð landeiganda nái svo langt niður sem nauðsynlegt er að leyfa honum þau til þess að hann geti haft þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á eignarrétti yfir fasteign.“ Það verður alls ekki talið að nýting djúphita, sem til þarf mikla tækni sem nýlega er til komin, geti fallið undir þessa skilgreiningu. Þess vegna ber Alþingi skylda til að setja lög um þetta efni rétt eins og það efni sem ég fjallaði um hér áðan.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. iðnn.