20.06.1985
Efri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7046 í B-deild Alþingistíðinda. (6457)

423. mál, viðskiptabankar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. vék hér að mér fsp. varðandi vexti af veðskuldabréfum og vék þar að fsp. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og svari við henni sem lagt hefur verið fram á Alþingi í dag. Það var óskað eftir þessari fsp. skriflegri og ég vil gjarnan nota þetta tækifæri og segja að mér finnst afar skynsamlegt hvernig þm. í þessu tilfelli beitir fyrirspurnarreglum Alþingis og fær þannig á skjali miklu skýrari svör við því sem um er spurt. Ég held að það mætti gera meira af slíku og það gæti e. t. v, þýtt að það sparaðist þó nokkur ræðutími hér á Alþingi ef meira væri gert af slíku. Þetta vildi ég gjarnan láta koma fram í sambandi við þetta.

1. liður fsp. hljóðar svo: „Geta bankar og sparisjóðir krafið viðskiptamenn um mismunandi vexti af veðskuldabréfum sem til innheimtu eru?“ Seðlabankinn, sem fer með vaxtaákvörðunarvaldið, svarar svo, með leyfi forseta, eftir að búið er að gera grein fyrir vöxtum, hverjir þeir eru, vaxtaauglýsingum og öðru slíku:

„Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið, svo og að framangreindar auglýstar ákvarðanir um vexti gilda bæði utan og innan innlánsstofnana, en um þessi atriði hefur vart verið ágreiningur, verður að telja að bankar og sparisjóðir geti ekki krafið viðskiptamenn um önnur og þyngri vaxtakjör í þessu efni en Seðlabankinn hefur auglýst frá einum tíma til annars.“

Það hlýtur að verða viðfangsefni viðskrn. að þessi mál verði með þeim hætti sem hér er um getið af hálfu Seðlabankans því að ef svo væri ekki þá samræmast fullyrðingar Seðlabankans í þessu svari ekki því vaxta ákvörðunarvaldi sem hann hefur.

Það verður að sjálfsögðu að skoða það mál til hlítar. En ég undirstrika það að ég mun fylgjast mjög vel með framvindu þessara mála og hafa samráð við Seðlabankann um það með hvaða hætti þessu verður hagað.

Varðandi það sem áður hefur komið hér fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. og hann gat um að hæstv. forsrh. hefði svarað vil ég undirstrika það sem fram kom í svari hæstv. forsrh. og hann sagði frá, að það er síður en svo að fallið hafi verið nokkuð frá því, sem var og er á dagskrá og er stefnumál ríkisstj., að sameina bankastarfsemi. Að því verður áfram unnið. Hitt taldi ég mjög eðlilegt að bankalöggjöf yrði sett því að hversu margir bankar sem starfa, hvort heldur það eru ríkisbankar eða einkabankar, þá er skynsamlegt að þegar menn vilja stokka upp viti þeir eftir hvaða löggjöf viðkomandi stofnanir skuli starfa. Þetta mál, þ. e. breyting á fyrirkomulaginu, fjöldi banka, hvort heldur það eru ríkisbankar eða einkabankar, hefur verið á dagskrá um langan tíma og af hálfu margra ráðh. viðskrn. verið unnið að því máli. Það er sjálfsagt mjög erfitt að ná slíkum hlutum fram en ég hef þá skoðun í dag að það sé slík samstaða um að gera þær breytingar að þegar ríkisstj. kemur til með að leggja það mál fyrir muni ekki standa á því að menn séu því sammála. Vitanlega geta þeir haft skiptar skoðanir á því hvernig þeim málum skuli hagað og það geta að sjálfsögðu verið uppi fleiri en ein till. í þeim efnum. En ég tek undir og undirstrika það, sem hæstv. forsrh. sagði. að áfram verður unnið að því máli og á grundvelli þeirrar löggjafar sem Alþingi samþykkir væntanlega í sambandi við viðskiptabankafrv.