20.06.1985
Neðri deild: 108. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7073 í B-deild Alþingistíðinda. (6483)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. dómsmrh. gegni ég störfum fyrir hann og ég tel mér því skylt að stíga í ræðustól og leitast við að svara spurningum hv. síðasta ræðumanns. Ég hef að vísu ekki þær upplýsingar allar sem hann bað um en get þó sagt honum að það mun ekki hafa verið gerð nein könnun í dómsmrn. á þessum markaði út af fyrir sig eða hvaða tekna megi vænta af lotteríi sem þessu. Þetta er mér kunnugt um. Dómsmrn. mun líta svo á að það sé ekki þess hlutverk að gera slíka könnun heldur að fylgjast með því að þeim lögum sé framfylgt sem sett eru um einstakar getraunir.

Af því að ég er staðinn upp vil ég segja það að mér þykir það ákaflega leitt að þessir árekstrar hafa orðið milli þessara ágætu hreyfinga, íþróttahreyfingarinnar og Öryrkjabandalagsins, og harma það mjög. Ég þóttist fullviss þegar ég léði máls á því að þetta mál færi fram að svo þyrfti ekki að verða og það m. a. vegna þess að hér er um að ræða bókstafalotterí en hins vegar hefur íþróttahreyfingin áfram réttinn á talnaröð. Ég lít svo á að íþróttahreyfingin með sínum mörgu meðlimum og sjálfboðaliðum og sterka kerfi eigi ekki að þurfa að vera áhyggjufull út af því þótt Öryrkjabandalagið reki svona bókstafaröð. Hins vegar verð ég að segja að ég hefði kosið að það gæti orðið samkomulag milli þessara ágætu hreyfinga tveggja, e. t. v. að þetta verði rekið sameiginlega, slíkar raðir talna og bókstafa, og Öryrkjabandalagið geti þá fengið einhverjar tekjur í sinn hlut. Ég varpa því fram hér hvort ekki er unnt að leita eftir slíku samkomulagi. Ég held að það væri mjög verðugt að gera það.

Af því að ég minnist þess að hv. þm. spurði hvort ríkisstj. væri með það í huga að draga úr aðstoð við Öryrkjabandalagið ef slíkt bókstafalotterí eða getraun verður rekin á þess vegum vil ég upplýsa hann um það að það eru engar áætlanir um það, alls ekki. Hér yrði um hreina viðbótartekjuöflun að ræða.

En sem sagt, ég vildi mjög gjarnan sjá og stuðla að því á þann máta sem ég get að það gæti orðið samkomulag milli þessara tveggja öflugu og ágætu hreyfinga og báðar orðið ánægðar með það. Vitanlega væri það miklu betra fyrir báðar hreyfingarnar.