20.06.1985
Neðri deild: 108. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7075 í B-deild Alþingistíðinda. (6485)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh., staðgengli hæstv. dómsmrh., fyrir að hafa nú í fyrsta skipti tekið hér til máls og leitast við að svara broti af þeim spurningum sem ég hef borið hér fram. Þau svör voru ekki innihaldsmikil sem ekki er nema von því að hæstv. forsrh. hefur auðvitað haft lítil afskipti og takmarkaða vitneskju um aðdraganda þessa máls og það sem að baki því býr. Þær upplýsingar liggja væntanlega allar hjá hæstv. dómsmrh. Jóni Helgasyni sem hefur ekki verið viðstaddur umr., hvorki nú í kvöld né undanfarnar nætur. Ég hef nú lýst furðu minni á hans fjarveru, ekki síst vegna þess að mér sýnist vera lagt mjög hart að Alþingi og alþm. að ljúka afgreiðslu þessa máls.

En hæstv. forsrh. vék hér nokkrum orðum að því að honum þætti leitt að til þessara árekstra skyldi hafa komið milli íþróttahreyfingarinnar annars vegar og Öryrkjabandalagsins hins vegar. Að því leyti hefur hann tekið undir meginkjarnann í mínu máli vegna þess að það er rauði þráðurinn í öllum mínum málflutningi að reyna að forða þessum árekstrum og ræður mínar hafa allar gengið út á það að reyna að sannfæra þingheim og upplýsa þm. um að það sé alvarlegt mál ef kemur til beinna árekstra jafn ágætra samtaka og þessara og við eigum að reyna að forðast það. Ég vil þakka hæstv. forsrh. skilning á þessu sjónarmiði.

Hann bætti því síðan við að hann teldi miklu eðlilegra að þessi samtök gætu unnið saman og minntist á það m. a. að það kæmi vel til greina að þau gætu unnið saman að starfsemi eins og þessari. Ég hef náttúrlega ekkert umboð fyrir hönd eins eða neins til að lýsa yfir einu eða neinu í því sambandi. En persónulega finnst mér vel koma til greina, hvort sem það er í skemmri eða lengri framtíð, að samtök eins og þessi standi sameiginlega að fjáröflunarstarfsemi sem rekin er, talnahappdrætti eða getraunastarfsemi. Þess eru dæmi erlendis að slíkt samstarf eigi sér stað og það hefur tekist með ágætum. Ég vil alls ekki útiloka að það geti átt sér stað. En við stuðlum ekki að því að það samkomulag geti orðið ef það á að ganga frá frv. því sem hér er til umr. og samþykkja það sem lög. Þá sitja báðir aðilar með sinn rétt og hefja væntanlega harða samkeppni. Það er enginn annars bróðir í leik og þá verður miklu erfiðara að leiða saman hestana og tengjast samstarfsböndum. Þess vegna hef ég haldið að það væri miklu viturlegra og skynsamlegra á þessari stundu að vísa þessu máli til ríkisstj. til frekari athugunar og doka við með afgreiðslu þess. Það þarf ekki að vera lengra en til haustsins. Ef menn vilja fylgja þessu fast eftir, ef menn telja sig hafa sannfæringu fyrir því að hér sé nauðsynlegt mál á ferðinni, þá er ekkert eðlilegra en leggja það fram aftur í haust. En í millitíðinni er þá hægt að kanna þetta mál betur eins og ég hef sagt hér fyrr í kvöld.

Ég held að það sem eigi að gerast í þessum málum sé það að það á að leyfa íþróttahreyfingunni að fara af stað með sitt lottó eins og lög gera ráð fyrir og sjá hvernig þeim gengur, sjá hvort þetta sé jafn arðvænlegt og menn halda í augnablikinu, leyfa Íslenskum getraunum að spreyta sig, leyfa þeim að kynna markaðinn og plægja akurinn. Ef tekjurnar eru það miklar að hér sé eitthvert stórgróðafyrirtæki á ferðinni og tekjur verði svo miklar að íþróttahreyfingin hafi jafnvel fé aflögu geta menn að sjálfsögðu í framhaldi af því þegar reynsla hefur fengist unnið að samstarfi í líkingu við það sem hæstv. forsrh. var að tala um.

Ég missti því miður að mestu af ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar því að ég þurfti að bregða mér frá í því hléi sem varð á ræðu minni hér áðan. En ég held að ég hafi tekið rétt eftir að hann hafi sömuleiðis verið að mælast til þess að einhvers konar samstarf gæti átt sér stað í framtíðinni og menn gætu sameinað kraftana. Að því leyti er það í sama anda og hæstv. forsrh. talaði. En einmitt ef menn hugsa á þeim nótunum er miklu skynsamlegra að doka við með þetta mál og finna lausnir á þessum árekstrum sem í uppsiglingu eru og nota tímann til að fá reynslu af því hvort lottó gefur eitthvað í aðra hönd hér á Íslandi eða ekki.

Mér finnst það vera fráleitt úr því sem komið er að knýja á um afgreiðslu á þessu máli á síðustu stundum þessa þings. Klukkan er núna korter yfir miðnætti. Það er í rauninni runninn upp nýr dagur og í fyrramálið kl. 11 á að slíta þingi. Þetta mál er enn í Nd., í fyrri deild, á eftir að fara í gegnum þrjár umr. í Ed. Ef menn hafa hugsað sér að afgreiða það í gegnum þrjár umr. og í gegnum nefnd í Ed. í nótt mundu það vera flaustursleg vinnubrögð. Þá mundi það bera þess vott að hér væri kastað til höndum og ég held að mönnum sé alveg fullkomlega ljóst að það eru ekki vinnubrögð til fyrirmyndar. Hér er deila, viðkvæm deila, vonandi í bróðerni og í góðu. Hér eru andstæð sjónarmið og ég held að það sé skynsamlegt og viturlegast að fresta afgreiðslu þessa máls fram til haustsins í staðinn fyrir að hrapa að óvandaðri afgreiðslu.

Þann 21. okt. 1983 skrifaði stjórn Íslenskra getrauna bréf til dómsmrn. svohljóðandi, með leyfi forseta: „Stjórn Íslenskra getrauna hefur á fundi þann 18. okt. 1983 samþykkt að hefja starfrækslu talnagetrauna skv. ákvæði í 2. gr. laga um getraunir, lögum nr. 59 frá 29. maí 1972. Um er að ræða þá starfrækslu sem greint er frá á bls. 7 í frv. til laga um getraunir, 251. mál 92. löggjafarþings 1971 í aths. við 2. gr. lagafrv., tvær síðustu mgr.

Meðal nágrannaþjóða okkar, sem hafa starfrækt getraunir um langt skeið, eru talnagetraunir (lottó) að verða ríkjandi háttur. Vegna þessarar þróunar og að Íslenskar getraunir ráða yfir vélabúnaði þeim sem beita þarf við nefnda starfrækslu hefur stjórn Íslenskra getrauna samþykkt að tilkynna hv. dómsmrn. þessa ákvörðun. Þegar ljóst verður hvenær undirbúningi verður lokið og þessi viðaukastarfsemi getur hafist mun rn. verða skýrt frá þeirri ákvörðun. Fljótlega mun ljóst verða í hverju breytingar á reglugerð nr. 472/1981 eru fólgnar og munu þá tillögur að breyttri reglugerð sendar rn.“

Þetta bréf les ég hér upp til þess að upplýsa að þegar í okt. 1983 var tekin ákvörðun um það að hefja starfrækslu á talnagetraunum og nú er, eins og fyrr hefur verið greint frá, búið að ráða starfsfólk, kaupa vélaútbúnað og koma sér upp aðstöðu til að hefjast handa á komandi hausti þannig að lottó er hér á næsta leiti. Skynsemin mælir með því að það fái að fara af stað á þessu hausti og reynsla fáist af árangrinum af þeirri starfsemi.

Einmitt þá dagana og þær vikurnar sem þetta lottó er vonandi að hefja göngu sína mun Alþingi koma saman að nýju. Þá munu menn átta sig á því hvernig þetta gengur, fá upplýsingar um það, skýrslur, greinargerðir og tölur um sölu og hagnað. Þá geta menn endurskoðað afstöðu sína eða haldið fyrri sjónarmiðum til streitu. Þá er þeim í lófa lagið annaðhvort að flytja frv. um getraunir fyrir Öryrkjabandalagið aftur inn á þingið og þá fengi það sjálfsagt fljóta afgreiðslu ellegar þá að kanna grundvöllinn fyrir því að menn sameinuðust með einhverjum öðrum hætti.

Þessar vangaveltur mínar eru algerlega á mína ábyrgð og ég tala ekki fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar þegar ég er að ljá máls á viðræðum og athugunum á þessu samstarfi. Ég veit satt að segja ekkert um það hver viðhorf íþróttahreyfingarinnar eru til þeirra hugmynda. Ég á von á því að hún vilji standa vörð um sinn lögverndaða rétt. En ef hér verður um ábatasamt fyrirtæki að ræða, eins og fyrr segir, sem gefur svo mikið í aðra hönd að íþróttahreyfingin stendur langtum betur að vígi en áður fjárhagslega séð finnst mér í framtíðinni koma til greina að eitthvert samstarf geti verið þar á ferðinni. Ef það hins vegar kemur í ljós í haust á fyrstu vikum og mánuðum lottósins að það reynist ekki sú tekjulind sem menn gera sér vonir um núna þá er það líka góð aðvörun fyrir Öryrkjabandalagið um það að þetta sé ekki endilega eins góður kostur og menn halda í augnablikinu. Þá er það líka ábending til alþm. og ríkisstj. um það að ráðlegast sé að fara aðrar leiðir til að veita Öryrkjabandalaginu aðstoð í sínum fjárhagsörðugleikum.

Til þess að upplýsa þm. betur um fjárhagsstöðu íþróttahreyfingarinnar hef ég tekið með mér nokkrar upplýsingar um þau mál til þess að menn átti sig á því að hér er ekki verið að gera óþarflega mikið úr fjármálaerfiðleikum íþróttahreyfingarinnar og þeim vanda sem við blasir hjá henni.

Íþróttahreyfingin er mjög stór hreyfing og innan hennar eru hundruð íþróttafélaga um land allt, stór og smá eftir atvikum. Öll þessi litlu félög afla sér einhverra tekna. Þau njóta mjög takmarkaðrar opinberrar aðstoðar. Það sama gildir um héraðssambönd, íþróttabandalög í héruðum, sérsambönd hinna ýmsu íþróttagreina og Íþróttasambandið sem eru heildarsamtök allra þessara mörgu félaga. Aðeins lítill hluti af því fjármagni sem þessi samtök þurfa á að halda kemur frá hinu opinbera.

Árið 1979 var styrkur á fjárlögum til Íþróttasambands Íslands 900 þús. kr. á núverandi verðlagi. Árið 1980 var þessi upphæð komin upp í 1.4 millj., árið 1981 upp í 2.4 millj., árið 1982 4 millj., árið 1983 í 6 millj., árið 1984 10.8 millj. og 1985 upp í 17.4 millj. Af þessu má sjá að — (HBl: Ég er hérna með ríkisreikninginn 1983.) Það kemur að því, ég mun kannske bara taka hann hjá hv. þm. ef á þarf að halda, en ekki í augnablikinu. En eins og á þessum tölum má sjá hefur þessi styrkur farið smáhækkandi. Yfirleitt hefur hann hækkað í samræmi við verðbólgu en svo brá við að milli áranna 1984 og 1985 hækkaði hann um allverulega hærra hlutfall en verðbólgan var milli ára og var því að sjálfsögðu vel fagnað af íþróttasamtökunum.

En það er fróðlegt að skoða þessa tölu, 17.4 millj., sem er fjárveiting á fjárlögunum árið 1985, í samanburði við heildarútgjöld íþróttahreyfingarinnar. Skv. heildarskýrslum fyrir árið 1983 var heildarrekstrarkostnaður hreyfingarinnar allrar 151 millj. svo að framlag ríkisvaldsins á því herrans ári 1985 er aðeins rúmlega 10% og það þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir á þessu sama ári á fjárveitingu fjárlaganna. Af 151 millj. fær íþróttahreyfingin 17 millj. frá ríkinu. Afganginn, 134 millj., þarf íþróttahreyfingin að taka eftir öðrum leiðum. Hún þarf að afla 134 millj. kr. árið 1983 með ýmsum sjálfstæðum fjáröflunarleiðum án atbeina og án tilstyrks hins opinbera. Þessar tölur hafa margfalt hækkað á árunum 1984–1985 þó að ég hafi þær tölur fyrir árið 1986 ekki tiltækar að sinni, þessar tölur eiga við um árið 1985.

Þá er eftir enn þá ótalinn kostnaður sem aldrei er til peninga mældur og ekki kemur til útborgunar vegna þess að hann er unninn af sjálfboðaliðastarfi sem ekki er tíundað og talið fram í skýrslum og reikningum íþróttahreyfingarinnar. En ég get ímyndað mér að það starf, sem þannig er lagt fram af þúsundum sjálfboðaliða um allt land, margfaldi þær upphæðir sem ég var að nefna hér áðan. Það skiptir tugum millj. ef það væri metið til vinnulauna per stund. Þá er enn ótalið allt það fé sem rennur til rekstrar á mannvirkjum, sem rennur til byggingar mannvirkja og einnig er gefið og látið af hendi rakna án endurgjalds.

Þessar tölur sýna betur en langar ræður hver vandi íþróttahreyfingarinnar er. Á hverju ári þarf hún að standa undir margvíslegu íþróttalífi hjá æskunni, bæði hér innanlands og eins í samskiptum við útlönd, og nýtur ekki meiri aðstoðar hins opinbera en svo að fjárveitingin á fjárlögunum er langt innan við 10%.

Ég þekki það af eigin raun sem forustumaður í einu sérsambandanna innan Íþróttasambandsins hvílíkt starf það getur verið, bæði vanþakklátt og erfitt, að afla tekna til að standa undir allra nauðsynlegustu starfsemi. Eitt lítið sérsamband á borð við Knattspyrnusambandið hefur kannske reikninga upp á 30–40 millj. Af þeim 17 millj., sem ganga til íþróttahreyfingarinnar frá hinu opinbera á árinu 1983, hefur Knattspyrnusambandið fengið innan við 500 þús. kr. sem eru ca. 5% af lágmarksútgjöldum sem slíkt samband þarf á að halda.

Ég vona að menn geri sér ljóst að hér er unnið innan íþróttahreyfingarinnar ákaflega mikið og gott starf, ekki bara fyrir einhverja toppíþróttamenn sem eru í sviðsljósinu heldur fyrir æsku landsins. Út um hinar dreifðu byggðir og í þéttbýli og hvar sem er stunda unglingarnir íþróttir og sækja inn í íþróttafélögin. Ég held að allir geti tekið undir það að það sé heilbrigður og góður vettvangur, gott uppeldi og hollt veganesti fyrir lífið. Þeim peningum er vel varið sem þar eru látnir af hendi rakna og það starf sem þar er unnið skilar sér vel í þjóðfélaginu.

Í þeirri skýrslu, sem ég hef hér undir höndum og er skýrsla framkvæmdastjórnar Íþróttasambands Íslands sem lögð var fram 4. maí 1985, er þess getið að íþróttasamtökin séu fjöldahreyfing rúmlega 80 þús. iðkenda. Þar er þakkað það hækkaða framlag sem frá ríkinu hefur komið á undanförnum tveimur árum en er nú ekki hærra samt sem áður en ég hef rakið í máli mínu. Í þessari skýrslu er enn fremur að finna nokkrar upplýsingar um Íslenskar getraunir. Þar segir, með leyfi forseta, eftir að rakið hefur verið hverjir sitja í stjórn Íslenskra getrauna:

„Í upphafi starfsársins var lagt til við dómsmrn. að einingaverð raðanna yrði hækkað úr 1,50 í kr. 2,50 fyrir röðina og var það samþykkt. Seðlagerðir voru óbreyttar frá fyrra ári, 10 raða einfaldir seðlar, kerfisseðlar með 16 raða og 36 raða kerfum, svo og 10 vikna seðlar með 10 einföldum röðum og 16 raða kerfi.“

Hlutdeild þessara seðlagerða í sölunni hefur verið þannig síðustu starfstímabilin. Síðan eru þessi hlutföll rakin frá árunum 1979–1980 og aftur til 1983–1984. Þá eru hér fróðlegar upplýsingar um þá veltuaukningu sem orðið hefur hjá Íslenskum getraunum síðustu árin. Með leyfi forseta ætla ég aðeins að geta þar helstu talna sem eru fróðlegar eins og fyrr segir. 1975–1976 var heildarsalan 273 þús. kr. og hafði þá hrapað nokkuð, um 20%, frá árinu áður. En ári síðar, tímabilið 1976–1977, jókst heildarsala upp í 342 þús. kr., eða um 25.3%. Á tímabilinu 1977–1978 jókst hún enn um 593 þús. eða um 73.5%. Árið 1978–1979 var heildarsalan orðin 977 þús. kr. og hafði þá hækkað um 64% milli ára. Starfsárið 1979–1980 var heildarsalan 1975 þús. kr. og hafði þá hækkað um hvorki meira né minna en 102% milli ára. Enn jókst salan að miklum mun, tók stórt stökk upp á við, á tímabilinu 1980–1981, var þá 6395 þús. kr. og hafði þá hækkað um 223% milli ára. Eftir það fór aftur að draga nokkuð úr sölu þessara getrauna. Á árunum 1981–1982 seldist fyrir 13.1 millj. og hafði þá aukningin orðið 105% á milli ára. 19821983 var selt fyrir 25 663 þús. kr. og hafði þá aukningin orðið 94.6% milli ára. 1983–1984 var salan komin upp í 39 millj. 432 þús. kr. og hafði þá hækkað um 53.6% milli ára.

Það línurit sem dregið er upp í þessum tölum sýnir að þó að krónutalan aukist ár frá ári hefur aukningin farið niður á við og er ekki orðin nándar nærri eins mikil og var á árunum 1978–1981. Menn hafa vissar áhyggjur af því að getraunir séu komnar í vissa stöðnun, það sé farið að gæta þreytu í þeirri starfsemi og vissar efasemdir um að miklu meira sé hægt að hafa upp úr þessari getraunastarfsemi en nú er raunin.

Einhverjum kann að þykja þessar tölur nokkuð háar. Það er talað um heildarsölu upp á tæpar 40 millj. Er þá þess að geta að þessi upphæð þarf ekki aðeins að standa undir rekstrarkostnaði í prentun og dreifingu og öllum rekstrarkostnaði hjá Íslenskum getraunum heldur þarf líka að greiða af þessari upphæð vinninga og borga söluþóknun til þeirra sem standa að sölunni og bera hita og þunga dagsins. Þegar upp er staðið er því ekki svo ýkja mikið eftir til skiptanna fyrir þá sem eiga þetta fyrirtæki. Það er kannske kjarni málsins og er fróðlegt að heyra fyrir þá sem nú vilja framgang nýrrar getraunastarfsemi á vegum Öryrkjabandalagsins að uppgötva það og fá það upplýst að hér eru ekki hærri upphæðir til skiptanna en ég hef rakið. Ég er ansi hræddur um að þær upphæðir mundu duga skammt til að standa undir húsbyggingarsjóði eða hússjóði Öryrkjabandalagsins, til að fjármagna húsbyggingar fyrir öryrkja, aldrað fólk og alla þá sem leita aðstoðar hjá Öryrkjabandalaginu. Það þarf margfalt hærri upphæðir til þess og getraunir og tekjur af þeim yrðu nánast eins og krækiber í helvíti og mundu ekki skipta neinum sköpum.

Þó er það athyglisvert að vinningar Getrauna hafa komist allt upp í 513 þús. kr. Það er því eftir nokkru að sækjast þegar menn spila í þessu happdrætti. Samt er heildarsalan ekki stærri upphæð en þetta og þó eru, eins og ég segi, hundruð, þúsundir manna í starfi fyrir Íslenskar getraunir í hverri einustu viku 8 eða 9 mánuði á ári, vinna þar endurgjaldslaust en í þágu sinna félaga sem fá 25% af hverjum seldum miða, 25% af brúttóverði miðanna. Það er hvatinn að því að menn leggja það á sig að vinna þessa sjálfboðavinnu og það er forsenda fyrir því að Íslenskar getraunir geta gengið, sjálfboðaliðastarfið. Ef alla þá vinnu þyrfti að greiða með lágmarkstaxta Dagsbrúnar — ég tala nú ekki um ef það væru hærri laun — mundi sá litli hagnaður, sem af þessari starfsemi hlýst, fjúka úf í veður og vind. Þá gætu menn lagt niður þessa starfsemi strax á morgun. (GJG: Þessi laun eru nú ekki til skiptanna.) Nei, þau eru ekki til skiptanna, þess vegna nefni ég þau vegna þess að þau eru það lág að mínu mati að það er ekki hægt að hrósa sér af því að borga þau laun. En jafnvel þó að þessir lægstu taxtar væru borgaðir þeim sem vinna fyrir Íslenskar getraunir og fyrir íþróttafélögin sem reyna að njóta góðs af þessum getraunum, jafnvel þó að það yrðu borgaðir lágmarkstaxtar Dagsbrúnar fyrir þá vinnu sem lögð er þar af mörkum, þá mundi það þýða endalok þessarar starfsemi vegna þess að sá kostnaður af greiðslu vinnulauna yrði það hár að ekkert yrði eftir.

Í þessari skýrslu Íþróttasambands Íslands sem er dags. 4. maí s. l. er jafnframt vikið örfáum orðum að lottói og segir í þessari skýrslu, svo að ég geti þess hér skilmerkilega, með leyfi forseta:

„Við endurskoðun laga um getraunastarfsemi árið 1982 var komið inn í 2. gr. laganna viðbótarákvæði um talnagetraunir. Á þar til gerða miða, getraunaseðla, sem félagið eitt hefur rétt til þess að gefa út og selja, eru merkt úrslit kappleikja, íþróttagetraunir, eða skráð niðurröðun ákveðins fjölda talna, talnagetraunir. Þarna er átt við getraunaform sem í nágrannalöndunum hefur hlotið nafnið lottó og tekið hefur verið upp m. a. í Vestur-Þýskalandi, Finnlandi og í Svíþjóð. Í Noregi er í undirbúningi að taka upp lottó á vegum norsku getraunanna en ákvörðun hefur enn ekki verið tekin.

Þetta hefur mikið verið rætt í stjórn Getrauna og vorið 1984 tók Jóhann Gunnarsson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskóla Íslands og formaður Siglingasambands Íslands, að sér að heimsækja sænsku og finnsku getraunirnar í því augnamiði að kynnast rekstri og fyrirkomulagi þessa þáttar í starfsemi fyrirtækjanna. Þá för fór hann í tengslum við ráðstefnu sem hann átti erindi á í Helsinki. Eftir heimkomuna lagði Jóhann fram mjög ítarlega og greinargóða skýrslu um ferðina, viðræður við ráðamenn þessara stofnana í Stokkhólmi og Helsinki svo og upplýsingar um starfsháttu og fyrirkomulag við rekstur á lottóum.

Í framhaldi af þessu hefur Þorsteinn Einarsson fyrrv. íþróttafulltrúi hitt að máli forráðamenn getraunafyrirtækisins í Rheinwald-Westfalen í Köln í júlí 1984 og leitaði upplýsinga um fyrirkomulag á lottói þar. Síðar hefur hann einnig þýtt reglur Svía og Finna um framkvæmd lottós.“

Enn einu sinni er ég hér að upplýsa Alþingi um það starf og þann undirbúning sem unninn hefur verið af hálfu Íþróttasambands Íslands varðandi lottó og starfsemi þess. Enn einu sinni er ég að segja frá því að það er ákvörðun Íþróttasambandsins að fara af stað með þetta talnahappdrætti núna í haust og ég held að allir sanngjarnir menn viðurkenni að þar er um að ræða bæði lögverndaðan rétt og líka móralskan rétt á því að ekki sé höggvið í þennan knérunn nú einmitt á þeim tíma þegar þessu talnahappdrætti á að hleypa af stokkunum.

Herra forseti. Ég hef hér rakið lítillega fjármál íþróttahreyfingarinnar og stiklað á því allra stærsta. En ég vildi aðeins víkja nokkrum orðum að fjármálasamskiptum hins opinbera annars vegar og Öryrkjabandalagsins og samtaka innan þess hins vegar.

Í lögum má finna ýmis ákvæði þar sem kveðið er á um skyldur hins opinbera til þess að láta fé af hendi rakna til þeirra málefna sem Öryrkjabandalagið hefur með höndum. Í því sambandi vil ég í fyrsta lagi vísa til laga um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila. En þar segir í lögum nr. 12/1952. með leyfi forseta:

„1. gr. Frá 1. janúar 1953 skal erfðafjárskattur skv. lögum nr. 30 frá 1921 og arfur skv. 33. gr. erfðalaganna frá 1949 — (Félmrh.: Þetta er úr gildi fallið. Það eru ný lög um málefni fatlaðra.) Hvar er að finna þan lög? Ég er hér með lagasafn frá 1983. (Félmrh.: Þau eru nr. 84 frá 1. janúar.) Já, þá mundi ég óska eftir því að forsetinn gerði ráðstafanir til þess að skrifstofan gæti útvegað mér hin nýju lög sem gilda um erfðafjárskatt og erfðafé. (SvG: Þau heita lög um málefni fatlaðra, hv. þm.) Lög um málefni fatlaðra eru væntanlega í þessu lagasafni og þau eru nr. 41 frá 1983. En hæstv. félmrh. upplýsti mig um það að lög um erfðafjárskattinn séu enn yngri, eða frá 1984. Allavega er þau ekki að finna hér í þessu lagasafni vegna þess að hér er sem sagt að finna lög frá 1952. Ég vonast til þess að hægt sé að gera ráðstafanir til þess að ég fái þessi lög í hendurnar en það er svo sem af nógu að taka í þeim efnum.

Lög um málefni aldraðra eru ný af nálinni, nr. 91/1982. Í 1. gr. þeirra kemur fram það markmið laganna að aldraðir fái þá heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand þess aldraða. Lögin miða að því að aldraðir geti svo lengi sem verða má búið við eðlilegt heimilislíf en jafnframt sé séð fyrir nauðsynlegri stofnanaþjónustu þegar hennar er þörf.

Síðan er gert ráð fyrir því að yfirstjórn öldrunarmálanna sé í heilbrrn. og það skuli stofna sérstaka samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Þá er rakið hver verkefni þessarar samstarfsnefndar séu. Nánar er kveðið á um það í lögunum að í hverju heilsugæsluumdæmi skuli vera ráð sem annist málefni á sviði öldrunarmála o. s. frv.

Í II kafla þessara laga er fjallað um Framkvæmdasjóð aldraðra og þar segir, með leyfi forseta, í 9. gr.: „Stofna skal sérstakan sjóð til að stuðla að byggingu húsnæðis og dvalarstofnana fyrir aldraða. Sjóðurinn skal bera heitið Framkvæmdasjóður aldraðra.

Tekjur sjóðsins eru:

1. Beint framlag ríkissjóðs skv. fjárlögum hverju sinni.

2. Tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar skulu leggja á menn sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Skal gjaldið nema kr. 300 á hvern mann á árinu 1983. Þó skulu börn innan 16 ára aldurs á tekjuárinu og þeir sem eru 75 ára og eldri undanþegnir gjaldinu svo og þeir menn sem hafa tekjuskattsstofn undir 60 þús. kr. Þá skal skattstjóri og fella gjald þetta niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Framangreindar upphæðir skulu hækka árlega í samræmi við skattgjaldsvísitölu. Um álagningu og innheimtu þessa gjalds skulu gilda sömu reglur og gilda um tekjuskatt og eignarskatt. Gjald þetta skal lagt á í fimm ár, í fyrsta sinn árið 1983.

3. Frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla.

4. Vaxtatekjur.

Fjmrn. skal skila Framkvæmdasjóði aldraðra ársfjórðungslega, á innheimtuárinu, 1/4 af áætluðum tekjum sjóðsins skv. þessari grein.“

Þá er í 11. gr. fjallað um það hvar sjóðurinn skuli varðveittur. En hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er skv. 12. gr.:

„1. Að fjármagna byggingar ríkisins vegna stofnana fyrir aldraða.

2. Að veita sveitarfélögum framlög til að kaupa eða byggja húsnæði fyrir aldraða.

3. Að greiða hlutdeild ríkissjóðs, sbr. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, í byggingum sveitarfélaga á stofnunum fyrir aldraða, enda verði jafnhátt framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra á fjárlögum hvers árs á móti.

4. Að veita framlög til samtaka eða einstaklinga vegna bygginga fyrir aldraða.

5. Að veita framlög til að standa straum af þeim breytingum og endurbótum á dvalarstofnunum aldraðra, sem nauðsynlegar eru og leiðir af ákvæðum þessara laga.

6. Önnur verkefni sem sjóðsstjórn telur brýn og ráðh. samþykkir.“

Hér er óþarfi að taka fram að samtök aldraðra eru þátttakendur í Öryrkjabandalaginu og hér er sem sagt gert ráð fyrir því í lögum að — (Gripið fram í: Aldraðir eru ekki þátttakendur í Öryrkjabandalaginu.) Þeir eru taldir upp sem einn af þátttakendunum í Öryrkjabandalaginu, ef ég man rétt. Það er vonandi að mig mismuni ekki í því, en það er mín skoðun að aldraðir séu þátttakendur í Öryrkjabandalaginu. Mér er bent á að það sé rangt og þá leiðréttist það hér með. En ég held samt að það hafi verið þörf á því að rekja þessi lög og minna á þennan Framkvæmdasjóð vegna þess að hann er liður í því kerfi sem ég hef verið að tala um að eigi að vera fyrir hendi í þjóðfélaginu, að hið opinbera standi undir kostnaði af byggingum og heimilum og stofnunum fyrir þá sem þurfa á slíkri aðstoð að halda vegna örorku, elli, lasleika, vanþroska eða annarra báginda. Það sama er hægt að segja um lögin um málefni fatlaðra. Þar er gert ráð fyrir því að stofnaður verði Framkvæmdasjóður fatlaðra eins og stofnaður er Framkvæmdasjóður aldraðra. Í IX. kafla þessara nýju laga frá 9. mars 1983 segir um Framkvæmdasjóðinn:

„Stofna skal sjóð er nefnist Framkvæmdasjóður fatlaðra og skal hann vera í vörslu félmrn. Sjóðurinn yfirtekur Framkvæmdasjóð þroskaheftra og öryrkja sbr. lög nr. 47/1979, og skuldbindingar hans. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna þær framkvæmdir sem taldar eru í 1. mgr. 26. og 27. gr. og aðrar framkvæmdir ríkisins vegna sérkennslu. Um framkvæmdir gilda ákvæði laga nr. 63/1970 um opinberar framkvæmdir að undanskildum framkvæmdum skv. 1. mgr. 27. gr.

Heimilt er jafnframt að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins til annarra sameiginlegra verkefna varðandi sérkennslu og endurhæfingu svo og annarra verkefna sem ríki eða sveitarfélögum ber sannanlega ekki að greiða, þ. á m. fyrirgreiðslu vegna framleiðslustarfsemi fatlaðra í heimahúsum, sbr. 2. lið 19. gr. Heimilt er að veita lán og styrk úr Framkvæmdasjóði sbr. 27. gr. Tekjur sjóðsins:

1. Ríkissjóður skal árlega næstu fimm árin leggja sjóðnum til a. m. k. andvirði 55 millj. kr. miðað við 1. jan. 1983. Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við byggingarvísitölu miðað við gildistöku laganna. Að þeim tíma liðnum skal endurskoða framlag ríkisins.

2. Tekjur erfðafjársjóðs.

3. Frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla.

4. Vaxtatekjur.“

Hér er enn og aftur sú stefna undirstrikuð og áréttuð að það sé eitt af verkefnum hins opinbera, ríkissjóðs og ríkisvaldsins, að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af byggingum í þágu öryrkja. Hér er enn einu sinni staðfest sú meginregla, sem ég held að hljóti að vera ríkjandi og eigi að vera ríkjandi á Íslandi, að ríkisvaldið, hið opinbera, í gegnum almannatryggingakerfið, í gegnum fjárlög og með löggjöf, standi þannig við bakið á því fólki sem við bágindi á að stríða í þjóðfélaginu og þarf á hjálp að halda, að það þurfi ekki að kvíða morgundeginum, að það geti lifað bærilegu lífi og í sátt við tilveruna þó að það búi við skerta heilsu eða skerta krafta andlega eða líkamlega.

Um leið og ég segi að þessi stefna eigi að vera ríkjandi — og ég er henni fylgjandi einfaldlega vegna þess að hún er hluti af okkar velferðarkerfi og hún er einn af hornsteinum hinnar félagslegu samhjálpar sem við öll erum sammála um að hið opinbera eigi að hafa forustu um — er ég að andmæla þeirri stefnu sem virðist nú eiga að taka upp, að leiða Öryrkjabandalagið út í getraunastarfsemi sem er hreinir vonarpeningar. Það er satt að segja til vanvirðu fyrir ríkisvaldið og fyrir okkur öll að bjóða öryrkjum upp á þennan kost.

Við eigum að sjá sóma okkar í því og við eigum að sinna þeirri skyldu okkar að láta það ríflegt fé af hendi rakna í gegnum fjárlög og í gegnum þessa sjóði að þetta fólk geti byggt yfir sig húsnæði og heimili eins og Öryrkjabandalagið er nú að gera sér vonir um að það geti gert ef það fái peninga út úr þessari getraunastarfsemi. Slík heimili eiga ekki að byggjast á lotteríum og afkoma og framtíð öryrkja á ekki að byggjast á tombólum. Öryrkjar eiga að hafa skjól í löggjöfinni og í fjárlögunum og á Alþingi en ekki að fá einhverjar gjafir og greiða með samþykkt á frv. eins og þessu sem hér er til umr. Þeim er enginn greiði gerður með því að samþykkja heimild eða rétt til bandalagsins um að fá að reka getraunir, hvort sem það eru talnagetraunir eða eitthvað annað, vegna þess að það er ekki fundið fé og það er allsendis óvíst um það hvernig árangur verður af þeirri starfsemi.

Hættan er sú að með því að Alþingi telur sjálfu sér trú um að það sé örlátt og almennilegt við Öryrkjabandalagið með því að samþykkja getraunastarfsemi í þess þágu verði á sama tíma eða í framtíðinni sagt við Öryrkjabandalagið: Þið hafið getraunastarfsemina, þið þurfið ekki meira. Því miður hefur þróunin verið sú að þrátt fyrir þessi lög og þrátt fyrir það að hér sé verið að tala um það að ákveðnar milljónir kr. eigi að ganga í þessa framkvæmdasjóði er hvað eftir annað skorið á þessi framlög.

Það er kannske ekki alltaf með heilum hug sem menn standa upp og þykjast vilja öryrkjum eða öðrum líknar- og mannúðarsamtökum vel. Nú efast ég ekki um að góður vilji standi til þess. Þetta er bara ekki hugsað ofan í botninn. Þetta er vanhugsað frv. og það er röng stefna sem í því felst. Það er ekki vegna þess að ég sjái eftir einhverjum krónum sem renna kannske til Öryrkjabandalagsins í gegnum þessa getraunastarfsemi heldur hitt að ég held að þeim góðu mönnum sé vansæmd sýnd sem standa í forustu Öryrkjabandalagsins með því að láta þá ganga hér með betlistaf eins og bónbjargamenn hingað niður á Alþingi og biðja menn um að greiða fyrir þessu frv. þannig að þeir geti fengið nokkrar krónur í viðbót til að byggja fyrir öryrkja.

Auðvitað ættu móttökurnar á Alþingi að vera þær að við þessa menn yrði sagt: Hvað ætlið þið að byggja? Hverjar eru áætlanir? Við skulum sjá um að þessir peningar komi af skattpeningum, af því fé sem ríkið hefur til úthlutunar á fjárlögum. Við erum ekkert of góð til þess vegna þess að það á að ganga fyrir. Það er hin félagslega samhjálp sem við viljum öll stuðla að. Það er til hreinnar vansæmdar að Öryrkjabandalag Íslands sé á hrakhólum með fjármagn og það sé ófært um að byggja fyrir sína skjólstæðinga nauðsynlegt húsnæði, kannske sérhæft húsnæði, til þess að fólk geti lifað við sæmilegar aðstæður. Það er til skammar að þetta bandalag skuli ekki hafa alla möguleika til þess eftir hefðbundnum leiðum og með beinni aðstoð ríkisins að byggja þessi húsakynni.

Eins og ég hef margsagt hér í kvöld og rakið ítarlega hef ég ekki nokkra minnstu trú á því að þó að þetta frv. verði samþykkt gefi það mikla peninga. Það verður ekki einu sinni upp í nös á ketti. Það verður langt frá því sem þarf til þess að standa undir þeirri ágætu starfsemi sem Öryrkjabandalagið er að tala um í erindi sínu og er forsendan fyrir því að ráðh. kemur með þetta frv. Það er bara dropi í hafið, örfáar krónur sem út úr þessu fást.

Ég hef bent hér á að heildarsala knattspyrnugetrauna, sem hefur verið í þó nokkuð miklum vexti og stendur vel, er núna eitthvað um 40 millj. og það fé er ekki til skiptanna. (HBl: Það er nú allnokkuð.) Ekki þegar um er að ræða brúttósölu og greiða þarf af þessum 40 millj. allan kostnað af rekstri fyrirtækisins, borga vinninga, borga sölulaun, þá er ekki mikið eftir í hagnað. Það er a. m. k. harla lítið sem eftir er í hagnað fyrir Öryrkjabandalagið til þess að byggja tugi íbúða fyrir sína skjólstæðinga. (HBl: Menn kaupa ekki getraunaseðla nema til þess að fá vinninga.) Menn kaupa ekki happdrættismiða nema til þess að fá vinninga. Nei, það er alveg hárrétt. En ég er hér að rekja fyrir þeim þm., sem hlýða á mál mitt og vilja reyna að taka sönsum í þessu máli, að það er ekki mjög ábatasamt nú til dags að ganga á torgum úti og selja happdrættismiða jafnvel þó að fólk vilji gjarnan fá vinninga vegna þess að happdrættin ganga sífellt verr á Íslandi. Stóru happdrættin kvarta hvort sem það eru peningahappdrætti eða vöruhappdrætti og litlu happdrættin hjá smáu félögunum, sem eru kannske að selja sínu byggðarlagi happdrættismiða eða í sínu hverfi eða til sinna félagsmanna, gera ekki meira en að sleppa slétt út úr því. É held þess vegna að þetta sé sýnd veiði en ekki gefin. Ég vil alvarlega vara alþm. við því að gera Öryrkjabandalaginu þann grikk að vera að samþykkja þetta frv. og gera það að lögum.

Skv. lögum um getraunir nr. 59/1972 er búið að veita Íslenskum getraunum rétt og leyfi til þess að reka talnagetraunir. Nú er það rétt að sá munur er á þessum lögum frá 1972 og frv. sem hér er til umr. að annars vegar er talað um talnagetraunir og hins vegar um bókstafagetraunir. En í eðli sínu er þetta sama spilið, happaspilið eins og segir í lögum frá 1926, og sömu lögmál sem gilda. Þar er í raun enginn sjáanlegur munur. Í eðli sínu er þetta eitt og sama málið. Og þessi réttur, sem við erum nú að fjalla um hér í kvöld að eigi að veita Öryrkjabandalaginu, er skv. lögum frá 1972 í höndum félags sem heitir Íslenskar getraunir og er í eigu íþróttahreyfingarinnar. Í 1. gr. þessara laga frá 1972 segir:

„1. gr. Ríkisstj. veitist heimild til þess að stofna félag, Íslenskar getraunir, sem afli fjár til stuðnings íþróttaiðkunum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan Ungmennafélags Íslands eða Íþróttasambands Íslands.“

2. gr. Félagið starfrækir getraunir, en með getraunum er átt við að á þar til gerða miða, getraunaseðla, sem félagið eitt hefur rétt til þess að gefa út og selja, eru merkt úrslit kappleikja (íþróttagetraunir) eða skráð niðurröðun ákveðins fjölda talna (talnagetraunir). Verð eininga, raða eða miða skal ákveðið í reglugerð að fengnum tillögum frá stjórn Íslenskra getrauna.

3. gr. Helmingi af heildarsöluverði raða eða miða skal varið til vinninga. Vinningar getrauna eru undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla til útborgunar.

4. gr. Menntmrn. fer með málefni Íslenskra getrauna, sbr. þó 5. gr. Íslenskum getraunum skal stjórnað af fimm manna stjórn sem sé skipuð einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna aðila: Íþróttanefnd ríkisins, stjórn Ungmennafélags Íslands, framkvæmdastjórn Íþróttasambands Íslands, stjórn Knattspyrnusambands Íslands, framkvæmdastjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Starfstími stjórnarinnar eru þrjú ár. Þóknun til stjórnarinnar ákveður menntmrn. og greiðist hún af Íslenskum getraunum.

5. gr. Dómsmrn. setur reglugerð um starfrækslu getrauna, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra getrauna, og hefur eftirlit með starfrækslu getrauna. Kostnaður við eftirlitið greiðist af Íslenskum getraunum skv. ákvörðun rn.

6. gr. Stjórn Íslenskra getrauna ræður félaginu starfsfólk og setur því erindisbréf. Reikningsár félagsins er frá 1. júlí til 30. júní. Reikningar þess skulu endurskoðaðir af ríkisendurskoðuninni. Ársreikning skv. ársskýrslu skal senda dómsmrn. og menntmrn.

7. gr. Stjórn Íslenskra getrauna ákveður hverjum veitist söluumboð og kveður á um sölulaun. Ungmenna- og íþróttafélög eða samtök þeirra gangi fyrir um veitingu söluumboða innan íþróttahéraðs síns. Gerður skal samningur við handhafa söluumboðs. Greiða skal stjórn héraðssambands 3% af heildarsölu í viðkomandi íþróttahéraði, enda staðfesti hún félagslega aðild umboðsaðila að samtökum sínum í íþróttahéraðinu.

8. gr. Til kostnaðar við íþróttagetraunir telst greiðsla til Knattspyrnusambands Íslands, að lágmarki 250 þús. kr., en 15 þús. kr. af hverri milljón heildartekna yfir 20 millj. kr. allt að því, að greiðslan nemur 475 þús. kr. á ári, og eftir að þeirri fjárhæð er náð greiðist til KSÍ 7500 kr. af hverri milljón.

Einnig teljist til kostnaðar 0.5% greiðsla af heildarsölu í varasjóð sem Íslenskar getraunir eiga og nota til þess að mæta áföllum sem félagið kann að verða fyrir.

9. gr. Þegar vinningar, sölulaun og kostnaður hafa verið greidd skal ágóði skiptast þannig: Til íþróttasjóðs 10%, til Ungmennafélags Íslands 20% , til íþróttasambands Íslands 70%.

10. gr. Öllum öðrum en Íslenskum getraunum skal óheimilt að starfrækja getraunir sem um ræðir í 2. gr. þessara laga. Enn fremur er óheimilt án sérstakrar lagaheimildar að starfrækja veðmálastarfsemi í sambandi við íþróttakeppni. Brot á þessum ákvæðum varða sektum sem greiðast í íþróttasjóð.

11. gr. Með mál út af brotum á lögum þessum fer að hætti opinberra mála.

12. gr. Leggist starfræksla getrauna niður skulu eignir félagsins varðveitast hjá íþróttanefnd ríkisins.“

Svo mörg eru þau orð. Þannig hljóða þessi lög um getraunir frá 1972. Þessi lög hafa verið framkvæmd að því er varðar knattspyrnugetraunirnar en ekki að því er varðar talnagetraunir. Það á sér þær skýringar, sem ég er búinn að gefa hér fyrr í kvöld, að stjórn fyrirtækisins taldi rétt að hleypa knattspyrnugetraununum af stað, enda voru þær þá kunnari og áhugaverðari fyrir 13–14 árum síðan. Það varð því að ráði að hleypa þeim af stað og láta lottóið bíða þar til nokkur reynsla fengist af getraunum og þær hefðu fest sig í sessi. Að þessum reynslutíma loknum, sem hefur verið alllangur og samt nauðsynlegur eins og fram kemur í þeim tölum sem ég nefndi áðan, hefur nú verið ákveðið að fara af stað með lottóið, enda virðist líka vera komin nokkur þreyta í starfsemi Íslenskra getrauna. Það er ljóst að svo umfangsmikil starfsemi, sem byggist á sjálfboðaliðastarfi árum saman viku eftir viku, hlýtur einhvern tíma að lýjast. Það er kannske komið að því. Þess vegna vill íþróttahreyfingin núna notfæra sér þann rétt sem hún hefur skv. þessum lögum og ráðast til atlögu við þetta spennandi verkefni og þess vegna kemur það flatt upp á hana, nánast aftan að henni, að á sama tíma og hún ætlar að fara að neyta síns réttar er lagt fram frv. um það að aðrir gangi einnig til þessa leiks. Ég held að verri stund hafi ekki verið hægt að kjósa sér en einmitt núna á þessu vori og n. k. hausti ef hvorar tveggja þessar getraunir fara þá af stað.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. er enn í húsinu. En hann tók hér til máls áðan og hafði nokkur orð uppi um það að hann treysti því að hægt væri að leysa þessi mál með viðræðum og samstarfi, hvort sem það væri fyrr eða seinna. Mér finnst ástæða til þess að eiga við hann orðastað um þessar hugmyndir hans. Það gæti kannske stytt biðina hjá hv. dm. hér ef eitthvert samkomulag gæti tekist þar að lútandi. Þó að ég gæti auðvitað ekki gert neitt samkomulag hér úr ræðustól held ég að það væri kannske nokkurs virði ef forsrh. mundi vilja beita sér í einhverjum slíkum málum og það leiddi til þess að þessu máli væri slegið á frest á meðan. Það er ástæðulaust fyrir mig að flytja hér langt mál ef sú leið yrði valin að þessu máli yrði frestað og menn skoðuðu af fúsum vilja aðra möguleika.

Já, hæstv. forsrh. Ég er nú búinn að standa í ræðustól frá því klukkan 10 sjálfsagt og rekja ýmislegt sem snertir þetta mál og ég hef tíundað margvísleg rök sem mæla gegn því að þetta frv. nái fram að ganga. Mér er satt að segja hulin ráðgáta hvernig á því stendur að slíkt ofurkapp er lagt á afgreiðslu þessa máls að þdm. sé haldið hér fram á miðja nótt til að bíða eftir afgreiðslu þess með hliðsjón af málavöxtum öllum. Við ætlum að slíta þinginu í fyrramálið kl. 11. Ég hafði ekki vitneskju um það og hef ekki enn að þetta mál hafi verið á forgangslista ríkisstj. Það mundi stytta vöku þm. hér í deildinni ef eitthvað væri hægt að þreifa sig áfram eftir þeim nótum sem hæstv. forsrh. vakti máls á áðan. Hann sagði í sinni stuttu ræðu, þó að ég muni það nú ekki orðrétt, að hann tryði ekki öðru en því að þessi ágætu samtök, sem hér eru að takast á með óbeinum hætti, gætu starfað saman í framtíðinni. Ef hæstv. ráðh. meinar þetta, sem ég efast ekki um, er óráð að fara að samþykkja þetta frv. núna. En yrði því frestað væri það gert í þeim tilgangi að menn gætu notað tímann fram til haustsins til að tala saman og átta sig á því hvernig þessum málum væri fyrirkomið og hvort samstarf kæmi til greina eða ekki. Ríkisstj. gæti beitt sér fyrir því að þeir sem málið varðar ræddu saman. Hún hefur ráðin í sínum höndum. Hún getur auðvitað lagt fram frv. til breytingar á lögum í skjóli síns meiri hluta. Ef kæmi í ljós að athuguðu máli og að viðræðum loknum að enginn flötur væri á því að tengja þetta saman með einum eða öðrum hætti er einfaldast af öllu að leggja fram þetta frv. að nýju í þingbyrjun næsta haust. Ég get ekki séð, þó að ég sé vaskur maður í ræðustól, að ég mundi ráða við að hefta framgöngu þess eina einustu dagstund, hvað þá að næturlagi, ef ríkisstj. mundi á annað borð leggja það fram og hafa áhuga á að það mál fengi afgreiðslu. Til þess að þreifa fyrir mér um hvort hér gæti orðið einhver málamiðlun, hvort hér væri hægt að finna einhverja lausn, þannig að menn gætu farið að stytta þennan fund og ég gæti farið að stytta mína ræðu, þá spyrst ég fyrir um hvort forsrh. mundi vilja beita sér fyrir því, og þá á þeirri forsendu að málið færi í bið á þessu þingi, að það kæmi ekki til lokaafgreiðslu í Ed.

Ég hefði haldið að þetta væri lausn sem allir gætu sætt sig við, líka þeir sem hafa barist fyrir framgangi málsins og viljað Öryrkjabandalaginu vel með því að styðja þetta frv. Ég held að forsrh. mundi gera vel með því að beita sér fyrir einhverjum lausnum á þessu máli sem er nú komið í nokkurt óefni vegna þessara árekstra. Ég heyrði að forsrh. gerir sér fulla grein fyrir því, sbr. ræðu hans hér áðan, hvernig komið er. Ég hef, eins og ég fyrr sagði, enga minnstu löngun til að reka horn í síðu Öryrkjabandalagsins eða spilla fyrir því góða félagi, en það kemur þannig út þegar menn þurfa að standa hér og rekja garnirnar úr frv. sem meint er sem hagsmunamál fyrir öryrkja þó að ég haldi að það verði allt annað. Það má vel vera að ekki sé áhugi á því að finna neina lausn á þessu máli, en ég skýt þessu fram af fullum velvilja og einlægni því að ég hef út af fyrir sig engan áhuga á því að standa endalaust í ræðustól og tefja fyrir öðrum þingmálum og halda vöku fyrir hálfum þingheimi ef annarra kosta er völ. Er sem sagt hægt að flytja mér nokkrar fréttir hingað upp í ræðustól af hvernig menn hafa hugsað sér framhaldið á þessu? — Það er sem sagt ekki neitt að frétta? (Forsrh.: Ég get staðfest það sem ég sagði áðan í þessu máli.) (Forseti: Væri ekki heppilegt að hæstv. forsrh. kveddi sér hljóðs?) Ja, ég er nú í annarri ræðu minni þannig að ég veit ekki hvort forseti mundi gefa mér kost á að taka til máls í þriðja skipti. Ég er því kannske ekki tilbúinn að fara úr ræðustól. (Forseti: Ég vil taka það skýrt fram að forseti er alls ekki að tala um að hv. þm. geti ekki lokið ræðu sinni.) Væri kannske hægt að gera hlé á fundinum í fimm eða tíu mínútur? (Forseti: Þess er kostur að gert verði fundarhlé í fimm mínútur. Við byrjum aftur þegar klukkuna vantar 25 mínútur í tvö. Fundinum er frestað í fimm mínútur. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég þakka fyrir það hlé sem gert var á fundinum í framhaldi af tilmælum mínum áðan um að menn töluðu saman og áttuðu sig á því hver staða málsins væri. Ég ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að ég teldi heppilegt að menn notuðu tímann á næstunni til að hefja viðræður um samstarf með einum eða öðrum hætti. Þá yfirlýsingu gef ég í eigin nafni og ekki fyrir hönd eins eða neins. Ég tel það vera skynsamlegustu niðurstöðuna að við dokum við með framgang þessa máls og áttum okkur á því hvað hægt er að gera á næstu vikum og mánuðum. Með vísan til þess að hæstv. forsrh. hefur kvatt sér hljóðs mun ég þar með ljúka máli mínu.