21.06.1985
Efri deild: 108. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7090 í B-deild Alþingistíðinda. (6510)

210. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um selveiðar við Ísland. Frv. þetta á sér langa sögu. 31. ágúst 1982 skipaði þáv. sjútvrh. nefnd til að semja frv. til l. um selveiðar við Ísland. Frv. þetta byggir að mestu á því nál. nema breyting var gerð á 3. gr. er varðar samráð við aðila um skipulagningu selveiðanna.

Frv. þetta var lagt fyrir Alþingi á síðasta vetri og kom þá frá sjútvn. Nd. 2. umr. var þá lokið, en 3. umr. lauk ekki. Frv. þetta var lagt fyrir snemma á þessu þingi, var afgreitt frá sjútvn. Nd. 20. mars, en er nú fyrst að berast Ed. Þetta er að sjálfsögðu mjög bagalegt. Hér er hins vegar um bæði mikilvægt mál að ræða og viðkvæmt og er afar brýnt að bæta skipulag þessara veiða þannig að fækkun sels og takmörkun stofnsins geti verið með eðlilegum hætti.

Ég vil leggja á það mikla áherslu að mál þetta geti náð fram að ganga. Ég geri mér grein fyrir að það er algerlega komið undir velvilja þessarar hv. deildar. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta mál, það hefur hlotið það mikla kynningu. Ég vísa þar til umr. í Nd., framsögu minnar þar, nefndarálita sem liggja fyrir og umsagna sem liggja fyrir á prentuðum þskj. sem ég veit að þm. hafa haft aðstöðu til að kynna sér.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.