21.06.1985
Efri deild: 108. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7092 í B-deild Alþingistíðinda. (6515)

398. mál, grunnskólar

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir á sér allnokkra sögu og mun mönnum ekki ókunnugt um það. Að mínu mati hefur hér verið beitt aldeilis ótrúlegum aðferðum við að sjá til þess að þetta mál næði ekki fram að ganga. Það hefur verið stimplað eitthvert sérstakt dreifbýlismál þrátt fyrir að það liggi fyrir samþykkt frá fræðsluráði Reykjavíkur, áskorun til menntmrh. um að fresta gildistöku ákvæðis um skólaskyldu í 9. bekk, sem málið fjallar um, áskorun um að þar fari fram nánari athugun.

Það liggja að sjálfsögðu fyrir fjölmargar áskoranir frá fundum kennara og skólastjóra úf um land. Með leyfi forseta má geta þess að fundur kennara á Norðurlandi eystra, haldinn 8. mars, skoraði á Alþingi og menntmrh. að tryggja öllum börnum ókeypis skólagöngu frá 6–16 ára aldurs án þess að lengja skólaskyldu upp á við frá því sem nú er. Þá liggur fyrir samþykkt frá sameiginlegum fundi fræðsluráðs og skólastjóra á Norðurlandi vestra sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sameiginlegur fundur fræðsluráðs og skólastjóra á Norðurlandi vestra, haldinn á Blönduósi þann 12. 3. 1985, telur ekki réttan tíma nú til þess að til framkvæmda komi skólaskylda fyrir 9. bekk grunnskóla, og mælir með því að nú í vetur verði ákveðin fræðsluskylda til reynslu.“

Þessu máli, gildistöku grunnskólalaganna um 9. bekk hefur verið frestað alls ellefu sinnum. Það segir sína sögu um hversu mikil andstaða hefur verið gegn þessu að mér er ekki kunnugt um nokkurn mann í skólastarfi sem virkilega mælir þessu bót.

Við fjölluðum í vetur um till. til þál. frá hv, þm. Kvennalistans — 1. flm. var Málmfríður Sigurðardóttir — og í tillgr. segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að tryggja að ríkissjóður gegni sömu skyldum hvað varðar fjárframlög í 9. bekk grunnskóla og við aðra bekki grunnskólans, án þess þó að skólaskylda komi til.“

Í grg. segir enn fremur:

„Því virðist skólaskylda 9. bekkjar ástæðulaus.“ Námsgagnastofnun hefur tjáð sig alls óviðbúna að koma þessu í framkvæmd og það er upplýst að kostnaður hleypur á milljónum ef ekki tugum milljóna við þetta. Það er því með öllu móti óskiljanlegt hvað vakir fyrir mönnum að leggjast á þetta mál með þvílíkum ofurþunga sem hér er gert. Það er ekki einu sinni hægt að ætla að það sé þekkingarleysi hæstv. menntmrh. Það hlýtur eitthvað annað að koma til.

Ég þykist sjá það nú að þessu máli verði ekki komið í gegnum þetta þing. En þessu máli er engan veginn lokið. Það er nú svo að það skiptir um ráðherra og ráðherrar hafa mismunandi skoðanir. Það er algerlega ljóst að það er fyrst og fremst skoðun ráðherra þessara mála sem ræður því að þetta frv. nær ekki fram að ganga nú og ábyrgð lýsi ég á hendur honum um það hvernig til tekst.