21.06.1985
Efri deild: 109. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7095 í B-deild Alþingistíðinda. (6523)

210. mál, selveiðar við Ísland

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Mér þykir afar þægilegt að vitna til tveggja flokksbræðra minna sem talað hafa á undan mér. Hv. þm. Valdimar Indriðason hefur gefið þá yfirlýsingu fyrir hönd sjútvn. Ed. Alþingis að hún vilji samþykkja þetta frv., enda þótt ýmsir nm. væru ósáttir með málsmeðferð. Mér þykir þó ekki síður og kannske enn vænna um orð Eyjólfs Konráðs Jónssonar sem hefur beint þeim tilmælum til forseta þessarar virðulegu deildar, m. a. vegna þess að hér er um ágreiningsmál að ræða, að málið verði ekki tekið hér til afgreiðslu. Mér þykir afar vænt um þessi orð þessara tveggja flokksbræðra minna.

Það er fjarri því að ég hafi eitthvað við það að athuga að verða í minni hl. í atkvgr., en ég á erfitt með að una því að ekki skuli vera hægt að fá næði til að fjalla um málið, flytja röksemdir fyrir sinni skoðun og ganga frá tillögugerð með sómasamlegum hætti. Ég hef vitnað í tvo flokksbræður mína, en ég gæti vitnað í fleiri, og m. a. í sambandi við þá umr. sem fór fram í Nd. Alþingis. M. a. komu þá fram mjög hörð andmæli gegn þessu frv. frá einum af þm. Sjálfstfl.

Nú muna það kannske einhverjir betur en ég, en a. m. k. á síðustu dögum hefur ekki verið minnst á þetta mál í þingflokki Sjálfstfl. Hér er þess vegna ekki verið að ganga gegn neinu samkomulagi. Það er vitanlega hægt að fara yfir það hvaða samþykktir hafa verið gerðar í þingflokknum og ég ætla ekki að vera með fullyrðingar í þeim efnum, en ég minnist þess ekki að það hafi verið gerðar samþykktir þar um að þetta mál skyldi ganga fram. Sjálfur hef ég verið alla tíð með efasemdir gagnvart þessu máli eins og margir aðrir bændur á Íslandi.

Nú ætla ég, virðulegi forseti, ekki að tefja þessa umr. sem slíka. Ég legg það í vald forseta hver sé minn þinglegi réttur í þessum efnum. Ég bið ekki um neitt annað en að fá næði til að fara yfir þetta mál og leggja fram mínar tillögur í því. Það er mín eina ósk í þessu máli.