21.06.1985
Efri deild: 109. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7096 í B-deild Alþingistíðinda. (6528)

Starfslok efri deildar

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Það er nú komið að lokum þessa fundar og um leið seinasta fundar hv. Ed. á þessu starfsári. Hér hefur, eins og oftast áður við slíkar aðstæður, verið mikið annríki í þingsölum seinustu daga og vinnudagur verið langur og þarf víst ekki að minna á það á þessum fundi þar sem klukkan er nú nærri orðin hálffjögur á nýjum degi. En það gildir ekki aðeins um hv. þdm., heldur einnig um allt annað starfsfólk þingsins. Það reynir því á lipurð og umburðarlyndi, samstarfsvilja og vaskleika í öllum störfum, jafnt í þingdeildinni sem í nefndum, á skrifstofu og í raunar öllum þeim störfum sem eru þinginu tengd því að þannig er nú málum háttað að störf þingdeildarinnar eru algerlega háð því hvernig gengur að samræma störfin svo að þau að lokum renni öll í einn greiðan farveg.

En þetta hefur gengið svo vel sem verða má í þessari hv. deild og segi ég þetta þrátt fyrir þær umræður og þau atvik sem hér hafa komið upp hjá okkur á síðustu mínútum þessa fundar sem er ekki nema eðlilegt. Það er því vissulega ástæða fyrir forseta þessarar hv. deildar að þakka öllum hv. þdm. sérstaklega fyrir mjög gott samstarf og þolinmæði í garð forseta. Þá vil ég sérstaklega þakka varaforsetum og skrifurum alla þeirra góðu aðstoð og samvinnu. Jafnframt er skrifstofustjóra Alþingis, svo og öllu öðru starfsfólki, þökkuð lipur fyrirgreiðsla, aðstoð og góð samvinna.

Ég óska ykkur öllum góðs sumars og vænti þess að við hittumst öll hell að hausti þegar Alþingi kemur saman á ný. Þessar óskir eru einnig ætlaðar fjölskyldum ykkar allra og þeim sem eiga langt heim að sækja óska ég góðrar heimferðar og heimkomu.