15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði fengið leyfi hæstv. forseta til þess að leggja fyrir hæstv. fjmrh. fsp. varðandi bréf sem hann eða rn. hans ritaði 8. okt. s.l. og ég geri þá ráð fyrir því að hæstv. forseti sjái til þess að fram geti farið umr. um þessi svör öll hér á eftir.

Hinn 8. okt. s.l. skrifaði Höskuldur Jónsson fyrir hönd ráðh. eftirfarandi bréf til allra rn. með leyfi hæstv. forseta:

„Í deilum þeim er nú hafa risið milli fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og BSRB hefur orðið vart ýmissa gerða í félagi BSRB sem varða við lög. Athafnir þessar eru sumar af því tagi að þær valda ríkissjóði tjóni er telja verður bótaskylt. Aðrar eru þannig að starfsmenn ríkisins brjóta gegn starfsskyldum sínum með þeim hætti að vafasamt verður að teljast að þeir séu hæfir til að gegna störfum sínum. Til athugunar hlýtur að koma að viðkomandi aðilar verði látnir sæta ábyrgð lögum samkvæmt fyrir háttsemi sína. Í því skyni telur fjmrn. mjög brýnt að rn. og forstöðumenn stofnana skrái niður þau tilvik, sem telja má að koma þurfi til athugunar í þessu sambandi, og geri þeim sem taldir eru brjóta lög grein fyrir bótaskyldu eða öðrum afleiðingum er tengjast kynnu gerðum þeirra.

F.h. ráðherra.

Höskuldur Jónsson.

Í tilefni af þessu einstæða bréfi hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. fjmrh. hér utan dagskrár eftirfarandi spurningar:

1. Í bréfinu segir m.a. að það hafi orðið vart við gerðir ýmissa félaga í BSRB sem varða við lög. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvaða aðgerðir eða gerðir er hér um að ræða? Ég tel ekki sæmandi fyrir hæstv. ráðh. að láta opinbera starfsmenn sitja undir dylgjum í þessu efni. Hann verður að skýra frá því hvað hér er á ferðinni.

2. Í öðru lagi segir í bréfi fjmrh. að athafnir þessar séu sumar þannig að þær valda ríkissjóði tjóni er telja verður bótaskylt. Ég fer fram á það við hæstv. fjmrh. að hann geri grein fyrir því hvaða tjón það er, sem ríkissjóður hefur þarna beinlínis orðið fyrir og ætla má að starfsmennirnir sjálfir séu bótaskyldir fyrir, þó að þeir séu í löglegri vinnudeilu.

3. Þá segir í bréfi fjmrh. að aðrar athafnir opinberra starfsmanna séu þannig, að starfsmenn ríkisins brjóti gegn starfsskyldum sínum með þeim hætti að vafasamt verði að teljast að þeir séu hæfir til að gegna störfum sínum. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Við hvað er hér átt? Hvaða starfsmenn eru það sem vafasamt verður að teljast að hæfir séu til að gegna störfum sínum?

4. Þá segir í bréfinu að til athugunar hljóti að koma að viðkomandi aðilar verði látnir sæta ábyrgð lögum samkvæmt fyrir háttsemi sína. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er ætlunin að kæra þetta fólk? Hvaða kærur er hér um að ræða, fyrir hvaða brot og hve margar eru þær kærur?

5. Þá kemur fram í bréfinu að fjmrn. telji mjög brýnt að ráðuneyti og forstöðumenn stofnana skrái niður þau tilvik sem telja má að koma þurfi til athugunar í þessu sambandi. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því hvort þessi skráning hefur þegar farið fram, hve mikið er um svona tilvik í hverju ráðuneyti og helst hverri stofnun fyrir sig og hvort fjmrn. hafi sent einstökum ráðuneytum og ríkisstofnunum skráningarform vegna þeirra sem eiga að vera á svörtum lista framvegis í rn. og á vegum ríkisstofnana. Það er útilokað að skilja þetta öðruvísi en að ætlast sé til þess af ráðuneytisstjórunum að þeir haldi skrá yfir þá sem brjóta reglur þær sem fjmrn. telur að halda eigi. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hefur slík skráning farið fram og hvað er það sem hér um ræðir?

6. Þá er í bréfinu gert ráð fyrir því að þeim sem hér um ræðir verði gerð grein fyrir bótaskyldu þeirra. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hve mörgum hefur þegar verið gerð grein fyrir bótaskyldu þeirra í þessum efnum?

7. Spurt er í tilefni af lokaorðum bréfsins: Hvaða aðrar afleiðingar eru það sem tengst geta gerðum opinberra starfsmanna og þeir geta átt yfir höfðum sér eftir þetta verkfall? Stendur til að reka menn úr rn. og ríkisstofnunum vegna þess að þeir eru ekki fjmrn. þóknanlegir? Eða hvaða aðrar afleiðingar er hér verið að hafa í hótunum um að framkvæmdar verði af fjmrn.?

8. Þá spyr ég að gefnu tilefni: Hyggst fjmrn. draga þetta bréf til baka? Ég teldi að það væri mjög skynsamlegt af fjmrn., til að greiða fyrir eðlilegum samningaviðræðum, að draga bréfið strax til baka. Og ég teldi það vera í góðu samræmi við þá yfirlýsingu sem fjmrh. gaf áðan vegna ummæla sem hann hafði um kennara, að hann stigi hér annað skref og drægi þessi orð einnig til baka. Ég spyr hæstv. fjmrh. að því um leið og ég skora á hann að draga þetta bréf til baka. Ég er sannfærður um að það mun greiða fyrir eðlilegri meðferð þessarar deilu en verið hefur til þessa.

9. Þá spyr ég bæði hæstv. fjmrh. og ég vil einnig leyfa mér að biðja hæstv. forsrh. að svara þeirri spurningu: Samþykkti ríkisstj. að þetta bréf yrði sent út eða fengu ráðh. að vita um bréfið eftir að það fór út til ráðuneytisstjóranna? Ef svo er, þá hvenær? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að það komi fram hvort allir ráðherrar voru með í ákvörðun um að senda út þetta einstaka bréf.

10. Í tíunda lagi spyr ég: Hvernig hafa ráðuneytisstjórarnir brugðist við þessu bréfi? Hefur borist skriflegt svar frá einhverjum þeirra?

Ég ætla ekki að hafa þessi ummæli lengri, herra forseti, þar sem hér er margt að ræða í tilefni af þeirri einstöku deilu sem stendur yfir. En ég endurtek áskorun mína til hæstv. fjmrh. um að hann dragi orð sín og rn. í þessu bréfi til baka.