13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

96. mál, nám á háskólastigi á Akureyri

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Ég tel rétt að vekja athygli á því að í raun og veru er ekki fyrst og fremst rætt um fjárfrekar framkvæmdir, steinsteypu eða annað slíkt, í þessu máli. Fyrst og fremst er hér verið að spyrja um það, hvort þær nýju greinar sem menn telja að óhjákvæmilega verði teknar upp í háskólanámi hér á landi á næstu árum, svo og fyrstu áfangar í ýmsu almennu námi, komi til með að verða kenndar í háskóla norðan heiða eða ekki. Hér er líka spurt um eflingu Háskóla Íslands því að sjálfsögðu yrði háskólanám á Akureyri samkvæmt þessum tillögum á vegum Háskóla Íslands. Þar með erum við að ræða um eflingu Háskóla Íslands sem slíks og ekki um stofnun nýs háskóla.

Ég harma það að ekki er gert ráð fyrir neinum fjárveitingum í samræmi við þessar tillögur á næsta ári. En að sjálfsögðu hefur fjárlagafrv. ekki verið afgreitt. Enn gefst því tóm til að breyta þar og bæta úr ef samstaða næst um það hér á hv. Alþingi.

Ég tel rökin, herra forseti, fyrir því að hefja háskólanám á Akureyri margvísleg. Fyrst vil ég þar nefna eflingu Háskóla Íslands sem ég tel brýnt verkefni. Þá má nefna ýmis menningarleg og menntunarleg rök sem of langt mál yrði að telja upp hér. Óhjákvæmilega líta menn á þetta sem byggðamál, sem ákveðinn prófstein á viðhorf í byggðamálum. Það má nefna einnig skipulagsleg rök margvísleg fyrir því að hefja háskólanám á öðrum stað en í Háskóla Íslands hér í Reykjavík, t.d. þau að ýmsar háskóladeildir eru nú þegar orðnar svo stórar og árgangar það fjölmennir að fyllilega réttlætanlegt er að skipta kennslu í þeim námsgreinum upp í smærri einingar, t.d. tvær. Þar á ég við m.a. fyrri hluta eða fyrsta ár í fjölmennustu greinum Háskóla Íslands, t.a.m. viðskiptafræði.

Ég vil enn og aftur undirstrika það sem ég sagði hér áðan að fyrir þessu máli er mikill áhugi á Akureyri og í nálægum byggðum. Akureyri sem skólabær hefur dregið til sín og dregur til sín nemendur víðar að en af Norðurlandi. Það kemur í ljós, þegar kannað er, að áhugi nemenda, jafnt þeirra sem eiga sín lögheimili á Akureyri og hinna sem koma um nokkurn veg þangað í skólanám, fyrir því að halda áfram námi sínu á Akureyri er mikill. Nemendur festa þannig tryggð við bæinn og vilja halda þar áfram ef þess gæfist kostur. Þess vegna tel ég að tilkoma verkmenntaskóla og vaxandi fjöldi nemenda, sem ljúka nú stúdentsprófi frá Akureyri og eru þannig tilbúnir til að hefja háskólanám, gefi fullkomlega tilefni til að taka þar upp slíkt nám. Ég hvet hæstv. menntmrh. og ríkisstjórn eindregið til þess að hrinda tillögum nefndarinnar, sem hér hefur verið rætt um, í framkvæmd.