13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

109. mál, lífeyrismál sjómanna

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram til hæstv. sjútvrh. svohljóðandi fsp.:

„Hvað líður endurskoðun á lögum og reglum um lífeyrismál sjómanna þar sem öllum sjómönnum verði tryggð sömu lífeyrisréttindi við 60 ára aldur?“

Á síðasta þingi flutti ég ásamt öðrum þm. Alþb. till. til þál. sem hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að athuga lífeyriskjör sjómanna og gera tillögur um samræmingu lífeyrisréttinda þeirra.

Nefndin skal skipuð af ráðh. skv. tilnefningu sjómannasamtakanna og samtaka útgerðarmanna auk fulltrúa fjmrn., heilbr.- og trmrn. og sjútvrn.

Nefndin skal sérstaklega kanna mismunandi lífeyrisréttindi sjómanna innan Lífeyrissjóðs sjómanna og mismunandi aðstöðu sjómanna til lífeyris um 60 ára aldur, svo og þann kostnaðarauka, sem leiða kann af samræmingu lífeyrisréttinda, og hvernig þeim kostnaði verði best mætt, þ.e. hvort það gerist með auknum iðgjaldatekjum lífeyrissjóðanna eða með öðrum hætti.“

Þessi till., sem ég lagði hér fram á síðasta þingi ásamt öðrum þm. Alþb., á sér nokkurn aðdraganda eins og kunnugt er. Það eru nokkur ár liðin síðan tekin var um það ákvörðun hér á hv. Alþingi að sjómenn skyldu eiga rétt til lífeyris frá almannatryggingum við 60 ára aldur. Jafnframt var tekin sú ákvörðun um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna að þeir sjómenn, sem þar eru sjóðfélagar, skyldu einnig eiga rétt á lífeyri við 60 ára aldur.

Nú er það svo að ekki greiða allir sjómenn iðgjald til Lífeyrissjóðs sjómanna, því að nokkrir sjómenn eru einnig innan nokkurra almennra lífeyrissjóða. Þar er um að ræða Lífeyrissjóð Vestfirðinga, Lífeyrissjóð Bolungarvíkur, Lífeyrissjóð verkamanna á Hvammstanga, Lífeyrissjóð stéttarfélaga í Skagafirði, Lífeyrissjóð Austurlands og Lífeyrissjóð Vestmannaeyja. Þess vegna var ljóst að með breytingunni á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna voru ekki tryggð réttindi allra sjómanna til lífeyris við 60 ára aldur.

Þetta hefur skapað margvísleg vandamál og er því nauðsynlegt að á þessum málum verði tekið. á síðasta þingi þá komu þessi mál til nokkurrar umr. M.a. kom þá fram í ræðu, sem hæstv. sjútvrh. flutti, að þessi mál væru til nokkurrar athugunar á vegum hans rn. sömuleiðis hafa þessi mál verið til sérstakrar athugunar á vegum fjmrn. sem fer með málefni lífeyrissjóðanna. Einnig snertir þetta mál heilbr.- og trmrn. sem fer með málefni Tryggingastofnunar ríkisins. Það eru því þrjú ráðuneyti sem hér koma við sögu. Ég taldi engu að síður rétt að beina þessu máli sérstaklega til hæstv. sjútvrh., þar sem þessi mál snerta auðvitað hans rn. mjög verulega og kjaramál sjómanna. Þess vegna, herra forseti, ber ég fram fsp. á þessa leið:

„Hvað líður endurskoðun á lögum og reglum um lífeyrismál sjómanna þar sem öllum sjómönnum verði tryggð sömu lífeyrisréttindi við 60 ára aldur?“