13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

109. mál, lífeyrismál sjómanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft stóru máli og máli sem ekki er vansalaust að ekki er búið að ráða bót á. Það eru auðvitað engin tök á því að ræða það mikið í fyrirspurnatíma. Ég vil aðeins vekja athygli á því í þessum umr., út af því sem hér hefur komið fram, að það er skoðun fulltrúa sjómanna og sjómannasamtakanna að hér hafi verið um að ræða loforð fyrrv. ríkisstj., varðandi lausn kjaradeilu sjómanna á þeim tíma, sem ekki hefur verið staðið við. Í því ljósi er sú ákvörðun tekin að stjórn Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja greiðir þetta og skuldfærir ríkissjóð fyrir greiðslunni, vegna þess að því er haldið fram af hálfu sjómannasamtakanna að því hafi verið lofað að ríkissjóður tæki að sér að standa skil á þessari greiðslu þannig að allir sjómenn nytu jafnréttis í þessum efnum.

Hér er í rauninni um enn eitt dæmi að ræða þar sem launþegar, í þessu tilfelli sjómenn, hafa keypt — slétt skipti voru einhvern tíma nefnd — hafa keypt félagsmálapakka og greitt hann í raun og veru með minni kauphækkun en ella hefði orðið, en síðan er ekki staðið við það sem lofað var. (Iðnrh.: Hvenær var þetta?) Þetta var í tíð fyrrv. ríkisstj., hæstv. iðnrh., líklega á árinu 1982, ef ég man rétt, en um það er hægt að fá gleggri upplýsingar ef hæstv. ráðh. æskir þess. En ég hygg að það séu líka hér inni hv. þm. sem muna þetta öllu gleggra, þm. sem nær stóðu málinu og komu nær því á þeim tíma þegar þetta var gert, þ. á m. fyrrv. hæstv. ráðh. í þeirri ríkisstj.

En þetta er skoðun sjómannasamtakanna, að við þetta loforð hafi ekki verið staðið. Því er málið komið í það óefni sem það nú er í og gífurlegur mismunur orðinn milli sjómanna, annars vegar í Lífeyrissjóði sjómanna og hins vegar í blönduðu lífeyrissjóðunum, sem sjómenn eru líka aðilar að. Að hinu ógleymdu, að ekki mun líða langur tími þar til Lífeyrissjóður sjómanna verður gjaldþrota, haldi málið áfram á þeirri braut sem það hefur verið.

Það er líklega þriðja nefndin sem nú er að starfi og fjallar um þetta mál og engin lausn eygist enn í þeim efnum. En það er fullkomlega ástæða til að undirstrika það sérstaklega að hér er slíkt stórmál á ferðinni að ekki er vansalaust af hálfu stjórnvalda og Alþingis að láta lengur reka á reiðanum.