13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

109. mál, lífeyrismál sjómanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég heyrði það á hv. 3. þm. Reykv. að eitthvað kannast hann við þetta mál og ber sig fremur illa undir efndum þeirra loforða sem sjómannasamtökunum voru gefin. Auðvitað er misjafnt mat manna á því hvort það er innlegg í umræður um mál að rifja upp loforð og sýna fram á að ekki sé við þau staðið. Ég held að það geti verið af hinu góða og ætti a.m.k. að geta orðið til þess að þeim sem slík loforð gefa og svíkja síðan verður vart treyst lengur í enn frekari loforðagerð. Ég held því að það sé fullkomlega eðlilegt að rifja upp, ekki síst í máli sem þessu, loforð til handa sjómannastéttinni, sem ekki hefur verið staðið við, og vekja athygli á því að það er til þess ætlast, í þessu tilfelli af sjómönnum, að við þau loforð sem ráðherrar gefa sé staðið.

Ég tel, hv. 3. þm. Reykv., fullkomlega eðlilegt innlegg í umræður sem þessar að bent sé á hverjir það eru sem hér eiga hlut að máli og vart við því að búast að þeim sem svíkja verði treyst aftur.