13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

110. mál, uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 114 að flytja fyrirspurn til félmrh. um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvenær hyggst félmrh. leggja fyrir Alþingi til staðfestingar samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, sem kveður á um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda og samþykkt var á 68. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 1982?“

Í þessari samþykkt kemur fram að síðan tillagan frá 1963, um uppsögn af hálfu atvinnurekenda, var gerð hefur orðið veruleg framþróun í lögum og framkvæmdaáætlun margra aðildarríkja varðandi þau efni sem tillagan fjallar um. Telur Alþjóðavinnumálastofnunin að vegna þessarar framþróunar sé tímabært að setja nýjar alþjóðareglur um efnið, sér í lagi með tilliti til hinna alvarlegu vandamála á þessu sviði, sem eru afleiðing efnahagslegra erfiðleika og tæknilegra nýjunga, sem fram hafa komið á síðari árum í mörgum löndum.

Ég tel, herra forseti, mikilvægt að Ísland fullgildi þessa samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og að hún muni verða verulegur stuðningur til að tryggja starfsöryggi launafólks. Þess vegna er þessi fyrirspurn fram borin.