13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

110. mál, uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hans. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. í umræddri samþykkt er um mjög mikilvæg og brýn ákvæði að ræða, sem tryggja eiga starfsöryggi launafólks, kannske ekki síst vegna tæknivæðingar og tækniþróunar í atvinnulífinu, fjarvistar úr starfi vegna veikinda og slysa, fjarvistar vegna fæðingarorlofs og bætur vegna atvinnumissis og fleira.

Hæstv. ráðh. telur að undirbúa þurfi lagasetningu áður en Alþingi staðfestir þessa samþykkt. Ég tel að það mundi flýta fyrir því að þær lagabreytingar yrðu gerðar ef Alþingi hefði áður samþykkt fullgildingu á þessari samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Fyrir því eru fordæmi að Alþingi hafi fullgilt alþjóðasamþykkt en á eftir hafi síðan fylgt lagasetning til samræmis við þær samþykktir. Ég nefni t.d. fullgildingu á alþjóðasamþykktum um jöfn laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf frá 1958, en lög voru síðan sett 1961 þar að lútandi. Ég tel því, herra forseti, að það mundi flýta fyrir ef Alþingi fullgilti þessa samþykkt og lagabreytingar kæmu þá á eftir.

Mér er kunnugt um að launþegahreyfingin leggur mikla áherslu á að Alþingi staðfesti þessa samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Og ég fæ ekki séð að þann undirbúning þurfi sem ráðh. gerir ráð fyrir áður en Alþingi samþykkir þessa samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.