13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

114. mál, Greiningastöð ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mun svara fyrirspurn á þskj. 118 frá hv. 3. þm. Reykv. þar sem spurt er hvort sú nefnd, sem skipuð var skv. ákvæði til bráðabirgða I1 í lögum um málefni fatlaðra nr. 41/1983 hafi skilað áliti og hvenær ráðh. hyggist gera grein fyrir áliti nefndarinnar og leggja tillögur hennar um framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins fyrir Alþingi til staðfestingar. Þetta bráðabirgðaákvæði hljóðaði svo:

„Félmrh. skal þegar í stað skipa fimm manna nefnd sem hafi það verkefni að gera tillögur um fyrirkomulag á framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins í samræmi við ákvæði 16. gr. Menntmrh. skipar einn fulltrúa frá Athugunar- og greiningardeildinni Kjarvalshúsi, heilbrrh. einn fulltrúa frá nýburadeild Landspítalans, félmrh. einn fulltrúa að fenginni tillögu svæðisstjórna, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands einn fulltrúa hvort.

Tillögur nefndarinnar skal leggja fyrir Alþingi til staðfestingar.“

Félmrh. skipaði þann 15. júní 1983 nefnd skv. þessu bráðabirgðaákvæði í lögunum. Í nefndina voru skipaðir Gunnar Biering, full trúi vökudeildar Barnaspítala Hringsins, tilnefndur af heilbrrh., og var hann skipaður formaður nefndarinnar, Jón Sævar Alfonsson, fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar, Arinbjörn Kolbeinsson, fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands, Sævar Halldórsson, fulltrúi Athugunar- og greiningardeildar Kjarvalshúsi, tilnefndur af menntmrh.

Bjarni Kristjánsson, forstöðumaður Sólborgar á Akureyri, var skipaður fulltrúi svæðisstjórna. Bjarni Kristjánsson sá sér hins vegar ekki fært að taka þátt störfum nefndarinnar og baðst lausnar 31. ágúst 1983. Var Eggert Jóhannesson, starfsmaður svæðisstjórnar á Suðurlandi, skipaður í hans stað. Ritari nefndarinnar var Margrét Margeirsdóttir í félmrn.

Nefndin skilaði ítarlegri greinargerð og tillögum skv. ákvæði laganna til félmrh. í lok aprílmánaðar s.l. Ég hugðist þá leggja þessa greinargerð fyrir hér á hv. Alþingi. En bæði var að Alþingi var um það leyti að ljúka störfum og eins það að menn voru ekki á einu máli um það hvernig þessar tillögur eins og þær komu frá nefndinni ættu að leggjast fyrir Alþingi. Niðurstaðan varð sú að eðlilegt væri að leggja þetta fram sem þáltill. ásamt öllum gögnum. Var ákveðið að vinna að því að leggja málið í því formi fyrir þing sem nú situr. Síðan hefur verið að þessu unnið og núna er þessi þáltill. ásamt með öllum fylgigögnum, sem eru mjög fyrirferðarmikil og fræðandi, til lokafrágangs í ríkisprentsmiðjunni Gutenberg.

Ég vænti þess fastlega að geta mælt fyrir þessari þáltill. og tillögum nefndarinnar hér á hv. Alþingi næstu daga. Ég vona að það dragist ekki. Próförkin var til lokafrágangs núna þessa dagana og ég held að það geti ekki skipt nema fáum dögum þangað til till. verður lögð fram. Annað hef ég ekki að segja um málið að þessu sinni.