13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

116. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Eins og þetta gjald er í dag greiða þeir hæst verðjöfnunargjald sem hæst verð greiða fyrir raforkuna. Það er auðvitað ekkert vit í því. Það hefði verið hægt fyrir löngu, og ætti að gera sem allra fyrst, að breyta gjaldinu úr prósentugjaldi á selda raforku í ákveðið gjald á hverja orkueiningu. Auðvitað mætti vera eitt gjald fyrir heimilisnotkun, annað fyrir stórrekstur o. s. frv. En það er fráleitt, finnst mér, að láta þá borga hæsta skattinn sem borga mest fyrir raforkuna. Því verður að breyta.

Ég fagna því auðvitað að til stendur að lækka verðjöfnunargjaldið og afnema á fjórum árum eða svo, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. En ég tel að sjálfsagt sé að breyta því úr prósentugjaldi af orkuverði í ákveðinn skatt á hverja selda orkueiningu.