13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

117. mál, aðveitustöð hjá Prestsbakka

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þessi svör, sem ég hef hér fengið, og sérstaklega fyrir upplýsingar um áætlanir Landsvirkjunar varðandi þetta mál því að þeir hafa ekki séð ástæðu til að senda upplýsingar austur þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir sveitarstjórnarmanna. Ég efa ekki ánægju íbúa þessara sveita, sem hér um ræðir, með þessar niðurstöður, sérstaklega þegar haft er í huga að þarna munu opnast möguleikar til sköpunar nýrra atvinnutækifæra fyrir það unga fólk sem nú þegar hefur flust í burtu frá þessum stöðum vegna ónógrar atvinnu, en vildi svo gjarnan geta séð sér og sínum farborða í heimabyggð sinni, sveitinni milli sanda.