13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

142. mál, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að það sé mesti misskilningur hjá þeim sem líta svo á að með þeirri lækkun tekjuskatts sem fyrirhuguð er á árinu 1985 sé verið að framkvæma kjarabætur eins og menn tala hér um. Það er gert ráð fyrir í fjárlagafrv., þó að ekki sé ástæða til þess að ræða það hér, hvorki tímans vegna né vegna gerbreyttra viðhorfa og forsendna að því er það varðar, að ná þessum 600 millj. með annarri skattlagningu, þannig að augljóst er að ekki er um það að ræða að lækka skatta á almenning í landinu. Hér er um það að ræða að færa skatta til, taka þá með öðru móti en að því er varðar tekjuskattinn af þessum 600 millj. Ég held að það væri hvað mest um vert ef hægt væri að fá yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um að með þessari stefnumörkun væru menn í reynd að lækka skatta en ekki breyta nafni. Það er það sem máli skiptir fyrir þá sem þessa eiga að njóta. Eins og málið er sett fram í aths. fjárlagafrv. og frv. sjálfu er víðs fjarri því að um slíkt sé að ræða. Hér er einvörðungu um að ræða að fella niður 600 millj. í tekjuskatti en taka 600 millj. með öðrum hætti í annarri skattlagningu. Af því hlýst engin kjarabót.