14.11.1984
Neðri deild: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

139. mál, fæðingarorlof

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég held að ég verði að byrja á því að taka undir orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar um þingsköp hér áðan. Maður hlýtur að furða sig á því hvað þm. sækja slælega þingfundi. Í tilefni af því máli sem hér er til umr. minnist ég þess að á síðasta þingi stóð hér þm. í ræðustóli og ræddi raunar mál, sem ekkert var þessu skylt, en við sátum tveir eða þrír þm. í salnum og hlýddum á. Þá kom þm. inn og spurði: Hvað er hér eiginlega til umræðu? Og þegar hann fékk að vita það sagði hann: Nú, ég hélt að þetta væri eitthvert kvennamál af því að það voru svona fáir að hlusta. En þetta var útúrdúr.

Hér er að sjálfsögðu um hið þarfasta mál að ræða. Það er breyting á lögum um fæðingarorlof, mál sem mundi vissulega rétta hlut foreldra og barna ef að lögum yrði. Við það vil ég þó gera vissar athugasemdir. Reyndar átti ég von á að þetta mál kæmi fram sem stjfrv. Mig minnir að hæstv. félmrh. hafi gefið loforð þar um á síðasta þingi, enda var hann 1. flm. samhljóða frv. sem flutt var á 105. löggjafarþingi. Það rýrir vissulega vonir um stuðning stjórnarliðsins við þetta mál að það skuli nú lagt fram af tveimur þm. úr aðeins öðrum stjórnarflokknum.

Þrátt fyrir nokkrar úrbætur varðandi fæðingarorlof, sem hér eru lagðar til, er hér of stutt skref stigið að mati Kvennalistans, eins og ljóst má vera af samanburði við frv. Kvennalistans sem flutt var á s.l. þingi og liggur nú öðru sinni fyrir hv. Ed. á þskj. 153.

Í fyrsta lagi teljum við lágmark að foreldrar eigi rétt á sex mánaða fæðingarorlofi, hvort sem um er að ræða fólk í launuðum störfum á vinnumarkaði eða fólk í ólaunuðum störfum utan vinnumarkaðar. Við tökum ekki undir þann söng að þjóðfélagið hafi ekki efni á því. Við tökum ekki undir þann söng að þjóðfélagið hafi ekki efni á því að búa vel að börnum sínum. Væri nær að nefna aðra útgjaldaliði ríkisins í því sambandi þó ég fari ekki út í þá sálma hér.

Í öðru lagi leggjum við til að orlofsgreiðslur miðist við full laun foreldris, en verði þó aldrei lægri en 15 866 kr. á mánuði miðað við 1. okt. 1984 og breytist skv. 9. flokki kjarasamnings Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrepi. Við gerum ráð fyrir að fæðingarorlofsgreiðslur miðist við full laun foreldris þannig að foreldri verði ekki fyrir fjárhagslegu tapi vegna fæðingarorlofs svo sem nú er.

Í fyrsta lagi er með þessu verði að viðurkenna að störf þau er lúta að umönnun og uppeldi barna eru engu síður þjóðhagslega mikilvæg en störf á hinum almenna vinnumarkaði og að foreldrahlutverkið er a.m.k. jafnmikils virði og fyrirvinnuhlutverkið í krónum talið. Í öðru lagi er hér um beint fjárhagsatriði að ræða fyrir konur sem annars lækka í launum við töku fæðingarorlofs og óvíst er að fjárhagur heimilanna geti borið.

Sama gildir um feður, sem í flestum tilfellum eru hærra launaðir en mæðurnar, og mundu því velflestir lækka mikið í launum við töku fæðingarorlofs. Hér er því einnig um að ræða mikilvægan þátt þess að feður geti nýtt sér þessi réttindi og borið aukna ábyrgð á umönnun barna sinna. Það er ekkert vafamál að þetta atriði er þröskuldur í vegi fyrir því að feður taki fæðingarorlof. En eins og nú er málum háttað er það afar sjaldgæft og stafar vitanlega af því að heimilið hefur einfaldlega ekki efni á því tekjuhrapi sem þetta fyrirkomulag býður upp á.

Auk þess leggjum við til að fæðingarorlof framlengist um a.m.k. tvo mánuði sé um tvíburafæðingu eða alvarlegan sjúkleika barns að ræða. Þetta eru þeir meginþættir sem ganga lengra í okkar tillögum um breytta skipan fæðingarorlofs heldur en gert er ráð fyrir í frv. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar í smáatriðum, enda er flm. frv. Kvennalistans, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, ekki enn búin að mæla fyrir því í Ed. Ég vil aðeins að lokum leggja áherslu á að hér er ekki aðeins um hagsmunamál kvenna að ræða heldur einnig karla — og þó miklu frekast barna. Því til áréttingar vil ég vitna í grg. með frv. Kvennalistans á þskj. 153, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós hve mikilvægt það er fyrir velferð og þroska barns að náið og traust samband myndist milli þess og móður þess eða nánasta uppalanda þegar á fyrsta æviskeiði. Gildi móðurmjólkur fyrir ungabörn er ótvírætt, bæði til næringar og verndar gegn sýkingum. Þó að allt sé betra en ekkert í þeim efnum hefur löngum verið miðað við a.m.k. sex mánuði sem æskilegan lágmarkstíma brjóstagjafar, en eftir þann tíma fer ónæmiskerfi barnsins að geta annað eigin vörnum. Jafnframt er brjóstagjöf mjög virk til að mynda sterk tilfinningatengsl milli móður og barns. Eins og nú er dugar þriggja mánaða fæðingarorlof ekki til að uppfylla þessar lágmarkskröfur.“

Því til áréttingar vil ég láta þess getið að við höfum fengið ákaflega margar stuðningsyfirlýsingar bæði frá konum og körlum víðs vegar um landið við okkar frv. og enn fremur álitsgerð lækna um þetta efni, sérstaklega það sem ég síðast vitnaði til um þýðingu brjóstagjafar fyrir heilsu ungbarna og einstaklingsins síðar á æviskeiðinu.