14.11.1984
Neðri deild: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

139. mál, fæðingarorlof

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins benda hv. síðasta ræðumanni, Kristínu Halldórsdóttur, á það, að það kom fram bæði í grg. frv. og enn fremur í minni ræðu að þetta er aðeins skref sem við erum að reyna að stíga. Við höfum reynslu fyrir því, sem erum búin að berjast fyrir þessu máli í 10–15 ár, að það hefst ekki öðruvísi en í skrefum og við viljum heldur taka lítil skref en ekkert. Stundum þýðir ekki annað en vera raunsær í slíkum málum. En það mundi engan gleðja meira en mig ef hægt væri að ná samkomulagi hér á Alþingi um að stíga stærra skref en þetta. En ég verð að játa að ég var í miklum vafa um hvort þýddi að taka bæði þessi skref, þ.e. að allar konur fengju sama fæðingarorlof og hitt, að lengja það aðeins um einn mánuð. En ég tel að það sé komin reynsla af því t.d. í Svíþjóð. Ég hef reynt að kynna mér þessi mál og þar er, eins og ég sagði, níu mánaða fæðingarorlof. Það er styst í Noregi, ekki nema þrír mánuðir, en nú er verið að ræða um að lengja það verulega. En í Svíþjóð er það eins og hv. þm. gat um, að miðað er við þau laun sem konan hefur haft, en hún fær þó ekki nema 90% af þeim launum.

Ég sé nú ekki ástæðu til að rekja þetta frá einu landinu í annað. Ég tel að með þeirri greiðslu sem við miðum þarna við, 8. launaflokki, sé út af fyrir sig allsæmilega séð fyrir því. Ég fellst ekki á og margar konur, sem hafa haft samband við mig, fallast heldur ekki á að það sé eðlilegt að mismuna konum að þessu leyti og að það fari eftir launum þeirra. T.d. ef læknir eða einhver annar, sem hefur há laun, fengi fæðingarorlof ætti það endilega að fara eftir þeim launum sem hún hefur haft. Hitt sé eðlilegra að það séu jafnar greiðslur. Margar þessar konur, sem við mig hafa talað, og konur sem starfa einmitt að þessum málaflokki telja þessa leið réttari. Það sé réttlátara en að fara eftir því hvað konurnar hafa í laun.

Ég vona bara að Alþingi beri gæfu til þess að stíga þetta skref. Og eins og ég sagði, ef hægt er að fá samstöðu um að stíga stærra skref, þá væru það mikil gleðitíðindi.