15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Sá forseti sem hér stendur er alltaf fús til þess að viðurkenna ef honum verða á mistök. Hann hefur ekkert talið það eftir sér að viðurkenna það ef svo er, en í þessu tilfelli er það nú reyndar ekki.

Við erum hér að ræða mál utan dagskrár, menn hafa óskað eftir því að fá að ræða hér mál utan dagskrár, fyrst og fremst tveir hv. þm., og ég hef gefið þeim orðið eðlilega miðað við allar málsástæður og því fer víðs fjarri að hér sé nokkuð verið að blanda saman málum. Ég held einmitt að ástæður séu þannig í þessu tilfelli að þau mál sem hér er um að ræða séu náskyld. Og ég tel að það sé fjarri því að þarna sé um svo fjarskyld málefni að ræða eins og t.d málefni ÍSALs og vísitölumál eru óskyld eða eitthvað slíkt. Þetta er algerlega ósambærilegt og þess vegna verður nú haldið áfram þessum utandagskrárumr. Þetta er ekki dagskrármál. Það er misskilningur, sem fram hefur komið, nú síðast hjá hv. síðasta ræðumanni. Við erum að ræða hér mál utan dagskrár og nú gef ég hæstv. fjmrh. orðið utan dagskrár.