15.11.1984
Sameinað þing: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

11. mál, lækkun á gjaldtöku fyrir lyfja- og lækniskostnað

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Við eigum að skammast okkar fyrir að ræða hér á Alþingi um hækkaðar álögur sem sérstaklega bitna á sjúku fólki og öldruðu, segir hæstv. heilbr.- og trmrh. Þetta er ekki hár skattur, segir ráðh. Það má vel vera að hann sé ekki mjög hár í krónum þegar upp verður staðið, en hann bitnar á röngum aðilum. (Heilbr.- og trmrh.: Er þm. farinn að heyra illa?) Þú færð sjálfsagt orðið hér á eftir, hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. býsnast mjög yfir þeim hækkunum í prósentum sem heilbrigðiskerfið tekur til sín frá ári til árs. Þetta á alls staðar við og er reyndar víða miklu hærra eða nokkru hærra en hjá okkur ef tekið er mið af þjóðartekjum. Þetta á sérstaklega við hér og er ekkert óeðlilegt vegna þess að gömlu fólki fjölgar mjög mikið frá ári til árs hér á landi. Það er því engin furða þó að fjármagn, sem fer í þennan þátt, aukist meira en nemur verðbólgunni.

En þá er spurningin: Hvað fáum við í staðinn fyrir þetta? Hæstv. ráðh. talar alltaf um þetta sem hrein útgjöld. Við fáum í staðinn fyrir þetta ekki bara bætta líðan, það eru ekki bara mannúðarástæður sem liggja á bak við þetta. Við fáum hundruð, við fáum þúsundir af fólki í fulla vinnu, sem borgar fullan skatt, en lægi annars í kör, ef kerfið væri ekki eins gott og það er. Þannig efast ég um að þegar upp er staðið sé það mjög dýrt fyrir þjóðfélagið að halda uppi svona góðri þjónustu.

Ráðh. segir að sérstakt tillit hafi verið tekið til þeirra sem búa við verst kjör. Þetta er ekki rétt, því miður. Kaupmáttur grunnlífeyris elli- og örorkulífeyrisbóta hefur lækkað mun meira en lágmarkslaun. Ef við leggjum saman grunnlífeyri og tekjutryggingu, þá hefur það lækkað álíka mikið og laun í landinu. Það hefur lækkað meira en lágmarkslaun og er það nú allnægilegt fyrir fólkið að bera. Framfærslukostnaður hækkaði frá því í jan. 1983 þangað til í sept. 1984 um 82.8%. Grunnlífeyrir almannatrygginga hækkaði á sama tíma um 44.9%. Ef við tökum tímabilið frá júní 1983, þegar hæstv. ríkisstj. tók við, fram í ágúst 1984, þá hafa bætur bótaþega almannatrygginga hækkað á þeim tíma um 13% . Á sama tíma hækkaði lækniskostnaður, lyfjakostnaður og göngudeildarkostnaður um 300–400%. Er ekki nægilegt, hæstv. ráðh., að þetta fólk beri jafnmikið og meira en aðrir af þeim byrðum sem á þjóðina hafa verið lagðar vegna lækkandi þjóðartekna? Þarf líka að bæta á það viðbótarsköttum? Hæstv. ráðh. sagði að þetta væru ekki nýir skattar. Það er rétt. Þessi nöfn voru öll sömul til, en það er búið að fjór- og fimmfalda þessa skatta. Er það ekki nýr skattur þó að nafnið sé einhvers staðar til?

Sumt af því sem núna var verið að hækka liggur við að sé orðið hreint okur. Þannig kostar það sjúklinginn 270 kr. að láta taka eina þvagprufu. Þetta tekur 5 mínútur á rannsóknarstofu. Það þætti nú góð álagning einhvers staðar. Og þá er spurningin: Hverjir eru það sem borga þennan skatt? Hverjir eru það sem þurfa á þessu að halda? Jú, það er auðvitað sjúkt fólk, það er barnafólk og það eru elli- og örorkulífeyrisþegar.

Hæstv. ráðh. segir að það sé til ýmislegt af heimildarákvæðum. Það er rétt. Það eru mörg heimildarákvæði til. En það er verulegur munur á heimildarákvæðum og því sem ákveðið er í öðrum reglugerðum. Það þarf að sækja um slíkt. Og hvaða trygging er fyrir því að þeir sem þurfa mest á því að halda viti það að þeir geti sótt um uppbót til Tryggingastofnunar? Það er engin trygging fyrir því að gamalt fólk og sjúkt viti um þessi heimildarákvæði. Ég væri alveg tilbúinn í það að greiða hærra sjúkratryggingagjald og greiða hvaða skatt annan sem væri til þess að losna við að þetta fólk greiði þessar fáu krónur, eins og hæstv. ráðh. talar um, lítill skattur, litlar upphæðir. Við eigum að skammast okkar fyrir að ræða um það, segir hann.

Hæstv. ráðh. talaði um að sumir borguðu ekkert. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert. En það er yfirleitt fólk sem hefur enga peninga til að borga með hvort sem er svo það breytir ekki ýkja miklu. Hæstv. ráðh. talaði um að það ætti að fara sem best með fjármuni sem væri varið í þessu skyni. Þar er ég honum hjartanlega sammála. Forvarnarstarf og annað því um líkt, eins og hann minntist á réttilega, ber að styrkja. En þessar ráðstafanir, að hækka útgjöld fyrir þjónustu utan sjúkrahúsa og göngudeilda sjúkrahúsa, draga ekki úr kostnaði. Þær auka þrýstinginn á sjúkrahúsin, sem eru margfalt dýrari, þannig að ég er sannfærður um að þessi skattur, sem hér er verið að tala um að lækka, eykur kostnað heilbrigðiskerfisins en dregur ekki úr honum.