15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að svara hv. 3. þm. Reykv. og mun hefja mál mitt með því að lesa upp sama bréf fjmrn. og hann gerði, en það er frá 8. okt. 1984 og er til allra ráðuneyta og hljóðar svo:

„Í deilum þeim er nú hafa risið milli fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og BSRB hefur orðið vart ýmissa gerða félaga í BSRB sem varða við lög. Athafnir þessar eru sumar af því tagi að þær valda ríkissjóði tjóni sem telja verður bótaskylt. Aðrar eru þannig að starfsmenn ríkisins brjóta gegn starfsskyldum sínum með þeim hætti að vafasamt verður að teljast að þeir séu hæfir til að gegna störfum sínum. Til athugunar hlýtur að koma að viðkomandi aðilar verði látnir sæta ábyrgð lögum samkvæmt fyrir háttsemi sína. Í því skyni telur fjmrn. mjög brýnt að rn. og forstöðumenn stofnana skrái niður þau tilvik, sem telja má að koma þurfi til athugunar í þessu sambandi, og geri þeim sem taldir eru brjóta lög grein fyrir bótaskyldu eða öðrum afleiðingum er tengjast kynnu gerðum þeirra.“ Undir þetta er skrifað fyrir hönd ráðh. af Höskuldi Jónssyni ráðuneytisstjóra.

Þann 14. okt. berst svo svohljóðandi bréf frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, með leyfi forseta: „Eftirfarandi ályktun var samþykkt með öllum atkv.

á fundi stjórnar þann 14. okt. 1984:

Stjórn BSRB mótmælir því siðleysi og valdníðslu sem felst í bréfi fjmrn. dagsettu 8. okt. s.l. varðandi hlutverk ráðuneyta og forstöðumanna stofnana í verkfalli BSRB. Krefst stjórnin þess að ríkisstj. hlutist til um að bréf þetta verði tafarlaust afturkallað og beðist afsökunar á því.

Fyrir hönd stjórnar BSRB.

Kristján Thorlacius.

Albert Kristinsson.

Haraldur Steinþórsson.“

Þetta bréf er sent bæði til forsrh. og fjmrh.

Í fundargerð ríkisstj., sem ég leyfi mér að vitna til hér því að er spurt, er svohljóðandi bókun.

„Fjmrh. lagði fram skrá um nefndir sem starfa í kjaradeilunni, fréttatilkynningu og bréf til allra rn. og spurði hvort athugasemdir væru við útsendingu tilkynningar og bréfsins. Engar athugasemdir.“

Bréf það sem hér um ræðir var lagt fram á fundi ríkisstj. þann 8. okt. og samþykkt án athugasemda. Fer það ekkert á milli mála. Það var áður en bréfið var sent til rn. enda hér um innanhússmál að ræða. Efni bréfsins eru tilmæli til rn. og stofnana um að skráð verði lögbrot, er hafa í för með sér tjón fyrir ríkissjóð, og skráðar verði athafnir starfsmanna ríkisins sem eru þess eðlis að þeir teljist lítt hæfir til að gegna störfum sínum. Þetta er að sjálfsögðu ekkert nýtt. Þetta eru skyldur sem hvíla á öllum þeim starfsmönnum sem forræði hafa með eignum ríkisins. Þeirri skoðun er stöðugt verið að lauma inn hjá almenningi að engu máli skipti hvað menn aðhafist í verkföllum. Þessari skoðun lauma þeir menn inn sem telja að í yfirstandandi verkfalli eigi ríkisstj. í reynd að vera í höndum verkfallsstjórnar BSRB. Verkfallsverðir BSRB hafa bakað ríkissjóði margvíslegt tjón með athöfnum sínum er líkur eru á að séu lögbrot. Það væri léleg hagsmunavarsla af hálfu ríkissjóðs ef eigi væri kannað hvort skemmdir á eignum hans eða miski framinn af starfsmönnum hans veiti rétt til bóta.

Í gær voru tæki Skipaútgerðar ríkisins á Akureyri skemmd. Verkamaður á Akureyri varð og í gær fyrir líkamsmeiðingum af hálfu verkfallsvarða BSRB. Skip Skipaútgerðar ríkisins hafa verið tafin hingað og þangað um landið vegna meintra verkfallsbrota í Reykjavík. Ætla má, það er í rannsókn, að fjarskipti hafi verið trufluð þrátt fyrir ótvíræðan úrskurð kjaradeilunefndar um hið gagnstæða. Það er ótvíræð skylda embættismanna að gegna þeirri hagsmunavörslu fyrir hönd ríkissjóðs sem til er mælst af þeim í bréfinu frá 8. okt. Embættismaður sem ekki gerði það væri að sjálfsögðu að bregðast skyldu sinni. Ég trúi því ekki að Alþingi ætlist til þess að skyldur yfirmanna rn. og ríkisstofnana séu aðrar í verkfalli en lög og reglur bjóða þeim við venjulegar aðstæður. Ummælum stjórnar BSRB um siðleysi og valdníðslu er að sjálfsögðu vísað á bug.

Ég hef ekki fleiru við þetta að bæta. Ég er nú yfirleitt á móti frammíköllum en ég vil spyrja, ef ég má, með leyfi forseta, fyrirspyrjanda úr ræðustól hvort ég hafi svarað nægilega eða hvort einhverjum spurningum er enn ósvarað á þeim langa spurningalista sem ég sá ekki fyrr en ég kom til fundar í dag. (SvG: Þeim er nánast öllum ósvarað, hæstv. ráðh. Það er spurning hvort ráðh. vildi svara sérstaklega spurningu nr. 8.) Já, hvort fjmrn. hyggist draga þetta bréf til baka. Við því er svarið nei. Það hefur ekki verið rætt og engin ákvörðun um það tekin svo að svarið á þessari stundu er nei.

Ef ég renni í gegnum bréfið og spurningarnar, úr því að þeim hefur ekki verið svarað, þá segir í fyrstu spurningu: „Í bréfinu segir m.a. að það hafi orðið vart við gerðir ýmissa félaga í BSRB sem varða við lög.“ — Það var svar í bréfinu, ég tók það til.

2.: „Þá segir að athafnir þessar séu sumar þannig að þær valdi ríkissjóði tjóni er telja verður bótaskylt.“ Þessu var líka svarað í bréfinu.

3.: „Þá segir að aðrar ... séu þannig að starfsmenn ríkisins brjóti gegn starfsskyldum sínum með þeim hætti að vafasamt verði að teljast að þeir séu hæfir til að gegna störfum sínum.“ — Skráningar hafa átt sér stað og eru í gangi og þetta verður kannað þegar upp er staðið og verkföllum er lokið.

4.: „Í bréfinu segir að til athugunar hljóti að koma að viðkomandi aðilar verði látnir sæta ábyrgð lögum samkvæmt fyrir háttsemi sína. Er ætlunin að kæra þetta fólk? Hvaða kærur er hér um að ræða og hvað margar?“ — Þetta fer að sjálfsögðu eftir brotum. (Gripið fram í: Fer það eftir brotum?) Að sjálfsögðu fer það eftir því hvort ríkisstj. — ég mun að sjálfsögðu hafa samráð við mína samstarfsmenn um það hvernig á málum verði haldið þegar upp er staðið. (Gripið fram í.) Það getur komið til þess. Nú er verið að halda skrá yfir þá til að vita hvað er þarna á ferðinni.

5.: „Þá kemur fram í bréfinu að fjmrn. telji mjög brýnt að ráðuneyti og forstöðumenn stofnana skrái niður þau tilvik sem telja má að koma þurfi til athugunar í þessu sambandi.“ Og önnur spurning í þessum sama lið: Hefur skráning af þessu tagi farið fram? Hefur fjmrn. sent ráðuneytum skráningarform vegna þeirra sem eiga að vera á svörtum lista eftir vinnudeiluna? — Ég segi: Þessi skráning hefur farið fram og hún heldur áfram á meðan verkfallið stendur yfir. En fjmrn. hefur ekki sent nein sérstök skráningarform til þess að búa til svartan lista sem til á að vera eftir vinnudeilurnar.

6.: „Í bréfinu er gert ráð fyrir því að þeim sem hér um ræðir verði gerð grein fyrir bótaskyldu þeirra. Hve mörgum hefur þegar verið gerð grein fyrir bótaskyldu þeirra?“ — Þessari spurningu get ég ekki svarað. Ég veit ekki svarið, enda vil ég ítreka að þessar spurningar voru lagðar fyrir mig eftir að fundur var settur hér og nú.

7.: „Hvaða aðrar afleiðingar eru það sem tengst geta gjörðum þeirra? Eru það uppsagnir eða hvað er átt við?“ — Þessu get ég ekki svarað. Það fer eftir brotunum sjálfum.

8.: „Hyggst fjmrn. draga þetta bréf til baka?“ — Ég er búinn að svara þeirri spurningu.

9.: „Samþykkti ríkisstj. að þetta bréf yrði sent út eða fengu ráðh. að vita um bréfið eftir að það fór út til ráðuneytisstjóranna? Ef svo er, þá hvenær?“ — Bréfið var lagt fyrir ríkisstj. áður en það var sent út. Þessari spurningu hef ég þegar svarað.

10.: „Hvernig hafa ráðuneytisstjórarnir brugðist við þessu bréfi? Hefur borist skriflegt svar frá einhverjum þeirra?“ — Eins og allir hér þekkja eru ráðuneytisstjórar ábyrgir aðilar og þeir bregðast áreiðanlega vel við sínum skyldum hér eftir, sem hingað til. Skrifleg svör hafa ekki borist mér. Ég hef ekki séð neitt skriflegt svar. Ég útiloka ekkert að þau séu til, en ég veit það ekki.

Þá hef ég farið í gegnum spurningarnar og ég vona að svörin mæti óskum fyrirspyrjanda og að hann telji þau fullnægjandi.