15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þar sem beint var til mín spurningu vil ég staðfesta það, sem reyndar hefur komið fram í ræðu hæstv. fjmrh., að umræddu bréfi var dreift á ríkisstjórnarfundi og ekki gerð við það athugasemd.

Ég skal annars fara nokkrum orðum um málefnið þó að litlu sé við það að bæta sem hæstv. fjmrh. hefur sagt. Það er ekki óeðlilegt að gerð sé skýrsla um framkvæmd verkfalls. Ég hygg að báðir aðilar ættu að gera það og halda þar til haga þeim athugasemdum sem þeir hafa fram að færa. T.d kann að vera að menn vilji breyta einhverju í þeim lögum sem gilda um verkfallið, M.a. liggur þegar fyrir hér á hinu háa Alþingi frv. um slíkt.

Ríkisstj. taldi sér skylt að halda slíka skrá, en ég vil taka skýrt fram að það hefur engin ákvörðun verið tekin í ríkisstj. um að stefna einum eða neinum og vitanlega mun ríkisstj. í heild fjalla um slíkt. Ég vil einnig lýsa þeirri skoðun minni að ef slíkt kemur til er eðlilegra að stefna samtökum eins og BSRB en einstaklingum sem ég geri ráð fyrir að séu í verkfallsaðgerðum í umboði eða samkvæmt ósk verkfallsnefndar sinna samtaka.

Ég vil leggja á það ríka áherslu, eins og ég hef reyndar sagt, að svona deila leysist aldrei í stríði og því er ákaflega mikilvægt að allt sé gert til að lægja þær öldur sem eru. Ég harma ef þetta bréf hefur orðið til þess að ýfa öldurnar. Mér sýnist of mikið lagt upp úr áreitni af hálfu ríkisvaldsins hvað þetta bréf varðar. Ég vil undirstrika að bréfið er eingöngu skrifað til að halda saman upplýsingum um framkvæmd verkfallsins, en engin ákvörðun hefur verið tekin um stefnur.