19.11.1984
Efri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

Umræður utan dagskrár

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér ekki að blanda mér í þessa umr. Ég skal játa að hv. 4. þm. Vesturl. gat þess við mig hér úti á bílastæði þm. um hádegisbilið að hann mundi stofna til utandagskrárumræðu um það efni sem hér er fjallað um. Þegar hann ræddi það við mig var ekkert getið um nein símskeyti í þessu efni. Ég vil satt að segja efast um að það sé eða hafi verið vilji hv. 1. þm. Vesturl. að þannig sé farið með skeyti til okkar þm. Vesturl., skeyti sem er í raun til okkar allra sameiginlega. Ég vil að þessu leyti taka undir gagnrýni hv. 5. landsk. þm. á þessi vinnubrögð. Ég vil sjálfur finna að þessum vinnubrögðum og tel óeðlilegt að farið sé með málaleitan til þm. með þessum hætti. Ég vil halda því fram að það sé afskaplega óeðlilegt að fundi þm. einstakra kjördæma beri að með þessum hætti. Ég skal ekkert um það fullyrða hvort málsmeðferð hefði orðið önnur en hér hefur orðið. þ.e. utandagskrárumr., hefðum við sameiginlega. þm. Vesturl., fjallað um þessi símskeyti. Hins vegar ítreka ég það sem ég fyrst vék að, ég mótmæli svona vinnubrögðum. Sú ástæða var fyrst og fremst fyrir því að ég sá mig tilneyddan að taka þátt í þessari umr.