19.11.1984
Efri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

Umræður utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég þakka svör ráðh. þó að ég fallist ekki á niðurstöður þær sem í svörum hans lágu. Í fyrsta lagi vil ég nefna veiðimagnið. þann afla sem borist hefur að landi á þessu síðasta tímabili. Skv. upplýsingum ráðh. er þegar búið að fiska í þann kvóta sem áætlaður var fyrir þetta tímabil og 250 tonn umfram. Það þýðir ef afli yrði svipaður áfram að svo gæti farið að þessi bátafloti færi rúm 1000 tonn fram úr á þessu tímabili.

Mitt mat er það að þarna sé um svo litið magn að ræða að það hafi verið gengið of langt þegar þetta lá fyrir. bæði í því að stöðva með svo litlum fyrirvara sem gert var og einnig að ákveða þessa stöðvun. að lofa þessum bátum ekki að halda áfram að fiska fram að þeim tíma sem flotinn verður stöðvaður fyrir jól. Ég held að þetta sé svo lítið magn að það sé mjög vafasamt með tilvísun til annarra þátta kvótans að telja að þetta hafi verið óréttlátt. Óréttlætið felst mest í því að hafa stöðvað veiðar þessara báta.

Eins er það með ýsuna. Það hefur verið upplýst og það er vitað að okkur tekst ekki að veiða þennan dýrmæta fisk eins og áætlað var. Samt er þessum bátum meinað að halda áfram veiðum á þessum fiskistofni alveg eins og þorskveiðar hafa verið stöðvaðar. Þetta finnst mér ansi merkileg fiskveiðistjórnun.

Í þriðja lagi er þessum bátum meinað að kaupa sér kvóta, komast inn í þennan frjálsa markað á miðunum okkar. Ég get fallist á þau rök, sem ráðh. var með, að þetta hefði ekki verið leyft í sumar og það væri ekki leyft að selja kvóta á milli. Þau rök falla að sumu leyti um sjálf sig þegar við hugsum til þess hvernig fært var á milli síldarkvóta — og þar var líka um óbundinn kvóta á bát að ræða og þorskveiðikvóta. Frávikin og dæmin eru því á ýmsan máta. Það er því ekki hægt að segja að þarna sé í eðli sínu verið að brjóta neinar reglur. Jafnvel voru þarna fyrirmyndir fyrir hendi.

Ég mun virða ósk virðulegs forseta um að eyða hér ekki löngum tíma. En í sambandi við það sem hv. samþm. mínir úr kjördæminu nefndu áðan. að ég hefði farið hér með rangt mál í sambandi við upplestur á skeyti. þá ætla ég ekki að bera á móti því og ekki síst þar sem tveir hv. þm. bentu á þetta. Sjálfsagt er að hafa það sem sannara reynist. enda höfðu þeir bæði plöggin í hendinni og gátu endurskoðað það sem ég sagði. Ef svo hefur verið. þá hefur það verið af einhverjum misgáningi mínum. en alls ekki með neinni tilætlan — (EG: Og gleraugum.) — og gæti verið, eins og hv. þm. Eiður Guðnason segir, að það hafi verið gleraugunum að kenna. Ég er ekki með Hagkaupsgleraugun eins og hann, ég hef gleymt Hagkaupsgleraugunum heima.

Hv. 5. þm. Vesturl. sendi mér ákveðinn tón. Ég þakka honum óskaplega vel fyrir það að gera því allt að því skóna að ég hafi verið að flytja hér rangar upplýsingar. Ég frábið mér að það hafi verið ætlun mín en viðurkenni það að sjálfsögðu, þar sem upplýsingar hafa komið fram um að hér hafi verið rangt með farið. Ég biðst velvirðingar á því. En það er af og frá að ég hafi ætlað að fara að lesa hér rangt upp úr skeyti. Þessi skeyti bárust hv. 1. þm. Vesturl. og komu ekki í mínar hendur fyrr en þau komu í hendur annarra þm. Vesturl. Þau voru ekki á einn eða neinn hátt á mínum vegum.